Hátíð í tilefni dags íslenskrar tungu
Föstudaginn 14.11. héldu nemendur í FNV hátíðlegan dag íslenskrar tungu, þótt sjálfur dagurinn hafi ekki verið fyrr en sunnudaginn 16.11. Sjónum var að þessu sinni sérstaklega beint að tveimur skáldum en það voru þeir Steinn Steinarr og Geirlaugur Magnússon.
Dagskráin hófst með upplestri og söng á Héraðsbókasafni klukkan 9 um morguninn. Um þennan þátt sáu nokkrir nemendur úr íslensku 503. Þeir lásu upp smásögur, ljóð og sungu lög við ljóð eftir Stein Steinarr og Geirlaug Magnússon. Auk þeirra las Björn Magnússon nokkur ljóð eftir Stein. Nemendur í 5. bekk Árskóla voru sérstakir gestir að þessu sinni og fjölmenntu á bókasafnið ásamt kennurum sínum.
Klukkan 10 fóru nemendur FNV í hátíðargöngu frá Kirkjutorgi í miklu blíðskaparveðri. Fyrir göngunni fóru nemendur hestabrautar FNV á hestum sínum.
Að göngu lokinni tók svo við dagskrá á sal skólans. Þar voru fjölbreytt atriði í boði, má þar nefna umfjöllun um Stein Steinarr og Geirlaug Magnússon ásamt upplestri úr ljóðum þeirra. Einnig voru tónlistaratriði, bæði frá tónlistarklúbbi og kór skólans. Þá voru lesnar þýðingar á nokkrum kvæðum Steins yfir á þýsku og frönsku. Dagskráin tókst prýðilega og var til sóma öllum þeim sem að henni stóðu.