Haustþing leikskóla á Norðurlandi vestra

Húnavallaskóli
Húnavallaskóli

Föstudaginn 5. október sl. var haustþing leikskóla á Norðurlandi vestra haldið í Húnavallaskóla. Þingið sóttu 110 starfsmenn leikskólanna og var boðið upp á fyrirlestra og málstofur. Aðalfyrirlestur dagsins var „Hvernig sköpum við sterka liðsheild“ og voru það þau Anna Steinsen og Jón Halldórsson frá KVAN sem fluttu hann.

Megininntak fyrirlestursins var að skoða hvernig hópar eru drifnir áfram af ákveðinni menningu sem skapast hefur innan hópsins. Hvað er það sem skapar þessa menningu? Hvernig getum við fundið út hverjir eru leiðtogarnir í hópnum? Eru leiðtogarnir jákvæðir eða neikvæðir og hvernig getum við sett markmið hópsins fram á þann hátt að allir séu tilbúnir að leggja sitt af mörkum til að ná árangri? (KVAN).

Eftir hádegi voru málstofur en meðal annars kynnti Fjóla Þorvaldsdóttir leikskólasérkennari hugmyndir um hvernig hægt er að vinna með spjaldtölvur í skólastarfinu.

Sigrún Líndal iðjuþjálfi og PMT ráðgjafi var með fyrirlesturinn „Aðferðir við að ná fram góðri samvinnu við börn.“

Þórunn Ragnarsdóttir leikskólakennari og Snædís Scheving Aðalbjörnsdóttir þroskaþjálfi, leikskólanum Vallabóli kynntu verkefni sem Þórunn hefur búið til og tengjast málörvun og stærðfræði.

Fólki gafst kostur á að skoða leikskólann, kynna sér áðurnefnd verkefni og taka þátt í starfstengdum umræðuhópum.

Að þingi loknu áttu gestir notalega samverustund sem endaði á ljómandi góðum kvöldverði.

Fyrir hönd undirbúningsnefndar Sigríður B. Aadnegard.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir