Hefur aldrei þolað Júróvisjón / GUÐBRANDUR ÞORKELL

Keli eldhress á hafnargarðinum á Króknum.  MYND: ÓAB
Keli eldhress á hafnargarðinum á Króknum. MYND: ÓAB

G. Þorkell Guðbrandsson hefur lengi alið manninn á Sauðárkróki en segist fæddur árið 1941 í Ólafsvík, „...sem er lítið fiskimannaþorp á Snæfellsnesi.“ Af lítillæti segist hann spila á hárgreiðu og þegar hann er spurður út í helstu tónlistarafrek svarar hann: „Afrek?“ 

Uppáhalds tónlistartímabil? Seinni hluti átjándu aldar og fyrri hluti þeirrar nítjándu.

Hvaða tónlist fær þig til að sperra eyrun þessa dagana? Ef þið meinið pop-tónlist væri það líklega Kaleo, en ef spurningin hefði komið fram um mitt síðastliðið ár, hefði það verið Contalgenið.  

Hvers konar tónlist var hlustað á á þínu heimili?  Mest var það nú kirkjutónlist, móðir mín var í 60 ár kirkjuorganisti og geri aðrir betur, og hún æfði sig og kórinn mikið heima.

Hver var fyrsta platan/diskurinn/kasettan/niðurhalið sem þú keyptir þér?  Fyrsta platan sem ég man eftir að hafa eignast var með Cliff Richard and The Shadows og annað lagið hét Living Doll, man ekki hvað hitt hét :-)

Hvaða græjur varstu þá með?  Einhvern plötuspilararæfil, gerðin var Philips.

Hvað syngur þú helst í sturtunni? Legg það hvorki á sjálfan mig né aðra að syngja upphátt.

Hvaða lag getur eyðilagt fyrir þér daginn?  Allt með Bubba Morthens.

Uppáhalds Júróvisjónlagið? Hef aldrei þolað Júróvísíón.

Þú heldur dúndurpartí í kvöld, hvað læturðu hljóma í græjunum til að koma öllum í stuð?  Aldrei partý hjá mér.

Þú vaknar í rólegheitum á sunnudagsmorgni, hvað viltu helst heyra?  Tja, ég man ekki eftir að ég hafi vaknað öðruvísi en í rólegheitum og yfirleitt frekar árla, en þá vil ég helst hafa hljótt.

Þú átt þess kost að fara hvert sem er í heiminum og skella þér á tónleika. Hvert færirðu, á hvaða tónleika og hvern tækirðu með þér? - Tja, ég er ekki vanur að fara neitt svoleiðis nema með konu minni. En skemmtilegasti tónlistarviðburður sem ég man eftir að hafa farið á, var þegar við hjónin fórum í Der Volksoper í Wien og sáum Töfraflautuna með úrvals flytjendum. Væri til í eitthvað sambærilegt aftur.

Hvaða tónlistarmann hefur þig dreymt um að vera?  Svoleiðis drauma kannast ég ekki við.

Hver er að þínu mati besta plata sem gefin hefur verið út?  Veit það svo sem ekki. Hinsvegar er besta plata og nær útspiluð úr plötusafni okkar hjóna, gömul konsertupptaka með The Modern Jazz Quartet frá tónleikum þeirra í París árið 1958

Sex vinsælustu lögin á Playlistanum þínum? -Ég held ég verði nú að gata á þessu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir