Heilbrigðisráðherra stefnir á sameiningu heilbrigðisstofnana á Norðurlandi
Vel var mætt á fund Sjálfstæðisfélags Skagfirðinga með Kristjáni Þór Júlíussyni heilbrigðisráðherra sem haldinn var í Ljósheimum sl. laugardag. Talaði hann fyrir sameiningu heilbrigðisstofnana á Norðurlandi andstætt meirihluta fundarmanna. Fram kom hjá ráðherra að Heilbrigðisstofnunin á Sauðárkróki þurfi að hagræða á þessu ári um 40 milljónir og standa um 20 milljónir útaf rekstri síðasta árs svo alls eru það um 60 milljónir sem þarf að brúa hjá stofnuninni.
Fundarmenn voru sammála um að nær stofnuninni er ekki hægt að ganga en nú þegar hefur verið gert og var skorað á Kristján Þór að hætta við fyrirhugaðan niðurskurð og sameiningartillögur enda hefur ekki enn komið fram hver ávinningurinn endanlega kann að verða að mati margra.
Kristján ræddi um hversu erfitt það væri að útdeila fjármunum þegar alla vantaði þá en sagði að þjónustan við Skagfirðinga ætti ekki að versna án þess að útskýra það nánar en sagði í fundarlok að því betur sem Norðlendingar stæðu saman þeim mun meira afl myndaðist gegn hinu mikla afli sem er á Suðurlandi.
Einar K. Guðfinnsson alþingmaður sté í pontu og gaf Kristjáni heilbrigðisvottorð og sagðist vita að hann væri í sama liði og fundarmenn og þeir báðir væru talsmenn landsbyggðarinnar. Einar velti því fyrir sér hvers vegna andstaðan væri svo mikil við sameiningu sjúkrastofnana þegar allir vildu þjónustuna sem besta og taldi víst að það væri vegna þeirra 50 opinberu starfa sem glatast hafa úr Skagafirði undanfarin misseri og fækkun íbúa í héraðinu.
Í lok fundarins las Jón Magnússon oddviti sjálfstæðismanna í sveitarstjórn Svf. Skagafjarðar ályktun fundarins þar sem skorað er á þingmenn að standa þétt um velferð Heilbrigðisstofnunarinnar á Sauðárkróki og var hún samþykkt samhljóða.




