HEITASTA GJÖFIN - „Það var sólríkur og fallegur dagur í Blönduhlíðinni eins og svo oft áður“

Hér er Jóhannes á fermingardaginn sjálfan í Miklabæjarkirkju, stórglæsilegur í íslenska hátíðarbúningnum.
Hér er Jóhannes á fermingardaginn sjálfan í Miklabæjarkirkju, stórglæsilegur í íslenska hátíðarbúningnum.

Jóhannes Björn Þorleifsson er frá Þorleifsstöðum í Akrahreppi en býr í B24 í 560 Varmahlíð með Margréti sinni og tveimur dætrum þeirra, Emmu og Áróru. Jóki eins og hann er gjarnan kallaður, vinnur í Flokku á Sauðárkróki og Förgu í Varmahlíð. Við fengum Jóka til að rifja upp sitthvað um ferminguna sína.

Hvar og hvenær fermdist þú? Á Miklabæ á hvítasunnu þann 31. maí 1998. Það var sólríkur og fallegur dagur í Blönduhlíðinni eins og svo oft áður.

Manstu eftir fermingunni sjálfri og fermingarfræðslunni? Fermingin var óvenjuleg að því leyti að við vorum ekki í fermingarkirtlum. Annars var þetta nokkuð hefðbundið. Fermingarfræðslan fór að mestu fram í matreiðslustofunni í Varmahlíðarskóla. Svo var eftirminnilegt fermingarbarnamót á Löngumýri.

Hvernig var fermingardressið og hárgreiðslan? Ég var í íslenska hátíðarbúningnum, stórglæsilegum. Hann er ennþá til á Þorleifsstöðum, held ég. Hann hefur í seinni tíð verið lánaður út á fermingardrengi, t.d skartaði Siggi Kúskur honum á sínum tíma. Þegar kemur að hárinu þá þykir mér líklegt að Kolla Ingólfs hafi bjargað því sem hægt var.

Hvar var fermingarveislan haldin? Veislan var haldin í Héðinsminni.

Hvað bauðstu upp á í fermingarveislunni? Það var eitthvert hlaðborð. Naut, svín og lamb, svo kökur.

Hver var heitasta gjöfin á þeim tíma? Held að það hafi verið fermingargræjurnar. Suma sem aðhylltust hestamennsku dreymdi um hnakk.

Hver er eftirminnilegasta gjöfin? Þær voru nokkrar. Til að nefna eitthvað þá fékk ég svona vasaúr af gamla skólanum.

Hvað stóð upp úr á fermingardaginn sjálfan? Ætli það hafi ekki verið fermingarathöfnin sjálf, annars var dagurinn allur hinn ánægjulegasti og fór nokkuð vel fram.

Ef þú ættir að fermast í dag, hvernig dress yrði fyrir valinu og hver væri óskagjöfin? Bara klassísk jakkaföt og spariskór, er ekki alveg að skilja þetta dæmi að menn fermist í hvítum strigaskóm. Óskagjöfin væri nýtt sjónvarp.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir