Hellulagt um miðjan mars - Áfram milt í veðri

Það hefur verið vorilmur í lofti norðan heiða, og vestan Tröllaskaga, síðustu daga og veðurblíðan tilvalin til ýmissa hluta. Á Sauðárkróki nýttu drengirnir hjá Þórði Hansen sér snjóleysið, og sólina, sl. mánudag og hellulögðu myndarlega stétt og voru snöggir að. 

Þeir Jói Þórðar, Gunnar Smári Reynaldsson og Eggert Birgisson voru í óða önn að leggja stéttina rétt fyrir utan skrifstofuglugga Feykis en stéttin tilheyrir nágrönnunum í Þreksport sem hafa verið að innrétta gamla tónlistarskólahúsið. Þangað inn mun starfsemi Þreksports fara inn áður en langt um líður.

Spáin er fín næstu dag fyrir Strandir og Norðurland vestra en gert er ráð fyrir austlægri eða breytilegri átt 3-10 og bjartviðri. Austan og norðaustan 5-13 á morgun og skýjað en úrkomulítið. Hiti kringum frostmark í dag, en víða frost í nótt. Hlýnar heldur síðdegis á morgun.

Veðurhorfur á landinu næstu daga:
Á fimmtudag:
Suðaustan 8-15 m/s en 5-10 á norðvestanverðu landinu. Skýjað og víða rigning, talsverð suðaustanlands og á Austfjörðum en úrkomulítið á Norðurlandi. Hiti 2 til 8 stig, mildast syðst. 

Á föstudag og laugardag:
Suðaustan 8-13 og dálítil væta, en hægari vindur og þurrt um landið norðanvert. Áfram milt í veðri.

Á sunnudag, mánudag og þriðjudag:
Útlit allhvassa sunnanátt með rigningu sunnan- og vestanlands, en léttskýjað á Norður- og Austurlandi. Hiti 2 til 7 stig, en frystir að næturlagi fyrir norðan og austan.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir