Heppnir lestrarhestar

Jólasveinalestur er skemmtilegt verkefni fyrir börn í 1.-7. bekk sem Menntamálastofnun, Félag fagfólks á skólasöfnum, Samtök forstöðumanna almenningsbókasafna, Heimili og skóli og KrakkaRÚV stóðu fyrir í vetur með það að markmiði að stuðla að yndislestri í jólafríinu ásamt því að hafa áhrif á lestrarmenningu almennt. Tíu heppnir þátttakendur fengu svo bókavinning.
Bókasafnið á Skagaströnd bætti um betur og var með sinn eigin leik samhliða jólasveinalestrinum og fólst hann í því að lestrarhestarnir skiluðu nafni sínu einnig í pott hjá bókasafninu. Nú hefur verið dregið úr pottinum. Það eru þau Jón Benedikt Jensson og Steinunn Kristín Valtýsdóttir sem duttu í lukkupottinn og fengu í vinning bókina Þitt eigið tímaferðalag eftir Ævar Þór Benediktsson og tvo miða Á þitt eigið leikrit eftir Ævar Þór sem verður sýnt í Þjóðleikhúsinu.