Hestamenn að braggast

Mikið líf er að færast í hestamennskuna á landinu eftir erfiða tíma hósta og kvefs í reiðskjótum landsmanna. Nú er boðað til hestamannamóta, hestadaga og hestaferða í Skagafirði.

Um verslunarmannahelgina verður haldið stórmótið Fákaflug á Vindheimamelum þar sem verður mikil dagskrá frá morgni og fram á nótt og er búist við mikilli aðsókn.  Að vanda verður keppt í gæðingakeppni í sérstakri forkeppni með 3-4 inná í einu. Einnig verða kappreiðar og töltkeppni. Dansleikir verða haldnir þar sem landsfrægir stuðgarpar halda fjörinu uppi og má búast við mikilli stemningu.

Hestamannafélagið Léttfeti leggur upp í sína árlegu Stóru ferð 6.-8. ágúst en fyrirhugað er að fara í Austurdalinn. Farið verður frá Miðsitju á föstudag fram Kjálka í Merkigil og gist þar. Á laugardag verður riðið fram Austurdalinn og aftur í Merkigil. Á sunnudag verður riðið niður Lýtingstaðahrepp í Mælifelsrétt.

Hestamannafélagið Svaði ásamt Gnýfara og Glæsi halda Hestadaga á Hofsósi helgina 13.-15. ágúst. Þar verður mikið húllumhæ og á laugardeginum verður hinn eini sanni fjölskyldureiðtúr og 20 ára afmæliskaffi í hesthúsinu við Bæ og grill og stuð fram eftir kvöldi í Höfðaborg .

Hestamannafélagið Stígandi leggur upp í sína sumarferð föstudaginn 13. ágúst frá Mælifellsrétt og verður farið í Galtarárskála. Daginn eftir verður riðið í Auðkúlurétt og þriðja daginn riðið þaðan í Bólstaðarhlíðarrétt og fram Svartárdal að Eiríksstöðum. Þaðan verður farið upp á fjall og komið niður Valadal og riðið sem leið liggur í Skarðsá og yfir ásinn í Syðra-Skörðugil.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir