Hestar, handverk og hamingja
Það verður margt um að vera í kringum stóðsmölun í Laxárdal í Húnavatnshreppi helgina 16.-18. september. Dagskráin stendur alla helgina og teygir sig m.a. í Laxárdal, Skrapatungurétt og á Blönduós, og ber yfirskriftina Hestar, handverk og hamingja.
Á föstudeginum verður m.a. hægt að fara í reiðtúr um Þverárdal yfir í Gautsdal, kíkja á markað í félagsheimilinu á Blönduósi og kaupa kvöldverð og taka þátt í happdrætti þar. Á eftir verður barinn opinn og trúbador á staðnum. Þá munu ljósmyndir og heimildamynd úr Laxárdal og Skrapatungurétt rúlla á skjánum í Félagsheimilinu.
Á laugardaginn verður lagt upp í stóðsmölun í Laxárdal. Áð verður við Kirkjuskarðsrétt, þar sem er borðað, drukkið og sungið og síðan riðið áfram í Skrapatungurétt. Um kvöldið munu Trukkarnir leika fyrir dansi í Félagsheimilinu á Blönduósi.
Á sunnudegi hefjast svo réttarstörf í Skrapatungurétt kl. 10 og standa eitthvað frameftir degi. Hægt er að fá nánari upplýsingar á Fésbókarsíðu viðburðarins. Meðfylgjandi myndband tók Feykir í Skrapatungurétt árið 2012.