Hey Iceland á Vísindi og graut
Lella Erludóttir, markaðsstjóri Hey Iceland, verður með fyrirlestur í Vísindi og graut í Háskólanum á Hólum 29. janúar milli klukkan 13: 00-14: 00. Lella Erludóttir er markaðsstjóri Ferðaþjónustu bænda. Ferðaþjónusta bænda hf. var stofnað af íslenskum bændum árið 1980 en ferðaskrifstofan er enn í meirihlutaeigu bænda. Lella segir forsögu fyrirtækisins ná allt aftur til ársins 1965 þegar erlendum ferðamönnum var fyrst boðið að dvelja á íslenskum sveitaheimilum gegn gjaldi.
„Í dag eru sölusvið ferðaskrifstofunnar tvö; Hey Iceland sem sérhæfir sig í ferðalögum á landsbyggðinni og býður upp á fjölbreytt úrval af gistingu hjá yfir 170 gististöðum af ýmsu tagi um land allt og afþreyingu við allra hæfi og Bændaferðir sem býður upp á innihaldsríkar pakkaferðir með íslenskri fararstjórn um allan heim. Undir merkjum Hey Iceland starfa um 160 ferðaþjónustubændur um allt land sem bjóða upp á gistingu, mat úr héraði og einstaka upplifun í sveitum landsins.
Ferðaskrifstofan er vottuð af Vakanum, en við leggjum mikla áherslu á sjálfbærni í starfsemi okkar og ábyrga ferðaþjónustu til að lágmarka þau neikvæðu áhrif sem starfsemi okkar kann að hafa á umhverfið og samfélagið.
„Sustainable rural tourism“ er einmitt sjálfbær ferðaþjónusta í sveitum þar sem markmiðið er að styðja við smærri samfélög og þess sé gætt að þjónusta og ávinningur hennar haldist í héraði og að ágóðinn fari til frekari uppbyggingar starfs í sveitinni.“