Heyskapur stendur sem hæst

Það er mikið um að vera hjá bændum um þessar mundir því auk þess að vera í fjárragi stendur seinni sláttur sem hæst hjá þeim mörgum. Eins og allir veðurminnugir menn vita var vorið og fyrri partur sumars óhagstætt gróðri víða á Norðurlandi og heyuppskera nokkuð undir meðallagi víðast hvar að sögn Eiríks Loftssonar ráðanauts í Skagafirði.

 

Eiríkur segir að allt bendi til þess að háuppskera verði víðast góð og til að sporna við heyskorti hafa sumir bændur tekið á það ráð að slá ýmsa bletti sem ekki hafa verið slegnir reglulega undanfarin ár. Aðspurður um hvort hann haldi að bændur verði heylausir í vor segir hann að það verði ekki ef heyforði og ásetningur fari saman.

Eyþór Dalmann verktaki, segir að heyfengur hafi verið misjafn milli bæja í fyrri slætti í sumar þar sem hann heyjaði, betri hjá kúabændum sem gátu friðað sín tún en lakari hjá fjárbændum sem þurftu að beita túnin lengur í sumar. Eyþór telur að bændur nái að klára háasláttinn fyrir lok næstu viku ef tíðin verði góð.

Fleiri fréttir