Hilmar Þór markahæstur og bestur í liði Kormáks/Hvatar

Hilmar Þór Kárason var valinn besti leikmaður Kormáks/Hvatar í sumar af aðdáendum liðsins.
Hilmar Þór Kárason var valinn besti leikmaður Kormáks/Hvatar í sumar af aðdáendum liðsins.

Aðdáendasíða Kormáks (og sennilega Hvatar líka) bíður ekki boðanna og hefur nú þegar tilkynnt val aðdáenda Kormáks/Hvatar á leikmanni, efnilegasta leikmanni og stuðningsmanni ársins 2022, þrátt fyrir að enn eigi liðið eftir að spila einn leik í 3. deildinni. Leikmaður ársins er Hilmar Þór Kárason sem hefur verið duglegur að setj'ann í sumar.

Í tilkynningu á aðdáendasíðunni segir að Hilmar hafi hlotið yfirburðakosningu í valinu en hann er markahæsti leikmaður liðsins þetta sumarið, með átta mörk í 13 leikjum og leiddi sóknarlínuna með mikilli prýði.

Anton Ingi Tryggvason var þá valinn ungmenni ársins. „Anton hefur komið mjög sterkur inn í sumarið og staðið vaktina í vinstri bakverði í fjölmörgum leikjum. Það er Aðdáendasíðunni mikil gleði að sjá unga heimamenn taka skrefið, því til þess er allur þessi leikur gerður,“ segir á síðunni.

Þá völdu aðdáendur Kormáks/Hvatar stuðningsmann ársins í netkosningu og þann heiður hlaut Þorgrímur Guðni Björnsson. Fimmtán aðrir hlutu tilnefningu en í umsögn segir: „Þorgrímur hefur staðið vaktina á áhorfendapöllunum í sumar sem síðustu ár, jafn heima og að heiman. Fer hann þar fyrir vösku stuðningsmannaliði vestursýslunnar og er leiðandi í fjörinu.“

Síðasti leikur tímabilsins hjá Kormáki/Hvöt er á laugardaginn kl. 14:00 en þá kemur lið KH í heimsókn en þeir Hlíðarendapiltar eru þegar fallnir í 4. deild. Frítt er á leikinn en safnað verður til styrktar aðstandendum harmleiksins á Blönduósi í ágúst. Hægt er að leggja frjáls framlög inn á reikning 0307-26-001261 með kennitölunni 650169-6629 - posi og baukur verða svo á staðnum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir