Hluti Borðeyrar skilgreint sem verndarsvæði í byggð

Borðeyri. Mynd:FE
Borðeyri. Mynd:FE

Mennta- og menningarmálaráðherra hefur staðfest tillögu sveitarstjórnar Húnaþings vestra um að hluti Borðeyrar verði verndarsvæði í byggð í samræmi við lög um verndarsvæði í byggð nr. 87/2015 en bréf þess efnis var lagt fram á fundi byggðarráðs Húnaþings vestra á mánudag.

Um afmörkun verndarsvæðisins segir í tillögunni:  „Svæðið sem um ræðir er 14.771 m2 á stærð eða tæplega 1,5 hektarar og stendur á landspildu sem kallast Borðeyrartangi. 

Mörk þessa svæðis ná frá læk sem fellur úr grónum gilskorningi sem kallast Lækjardalur að vestanverðu og meðfram sjólínunni á suðurhlið tangans frá þeim stað sem lækurinn fellur í víkina allt fram á eyraroddann í austri. Þaðan liggja mörkin meðfram sjóvarnargarði til norðvesturs þar til náð er beinni sjónlínu við brattan malarkamb rétt norðan við norðurgafl gamla sláturhússins. Þaðan ná mörkin í hallandi línu meðfram kambnum til vesturs að læknum. Markmið þess að gera hluta Borðeyrar að sérstöku verndarsvæði er að viðhalda og styrkja byggð á Borðeyri með þeim hætti að söguleg arfleifð kaupstaðarins fái notið sín og gildi hennar undirstrikað gagnvart heimamönnum jafnt sem aðkomufólki en þó ekki síst gagnvart komandi kynslóðum“.

Tillagan er staðfest að fenginni umsögn Minjastofnunar Íslands sem meðal annars horfir til afmörkunar verndarsvæðis, og gagna sem liggja til grundvallar greinargerð sem fylgir tillögunni, þ.m.t. fornleifaskráningar, húsakönnunar, mats á varðveislugildi og skilmála um verndun og uppbyggingu innan marka verndarsvæðisins. 

Sveitarstjórn Húnaþings vestra óskaði, í lok maí á síðasta ári, eftir staðfestingu mennta- og menningarmálaráðherra á tillögu sveitarstjórnar frá 19. maí sama ár þess efnis að gera hluta Borðeyrar að verndarsvæði í byggð og staðfesta með því menningarsögulegt gildi verslunarstaðarins. Á fundi sínum í síðustu viku harmaði byggðarráð Húnaþings vestra þau vinnubrögð að tíu mánuðum síðar hefði staðfestingin enn ekki borist og hvatti til að málið yrði klárað sem fyrst.

Byggðarráð fagnar staðfestingu ráðherra vegna menningarsögulegs gildis og ásýndar verslunarstaðarins á Borðeyri.  Staðfestingin mun vernda sérkenni byggðakjarnans í komandi skipulagsvinnu, segir í fundargerð ráðsins.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir