Hólamenn fara víða
feykir.is
Skagafjörður
07.12.2017
kl. 17.11

Á myndinni má sjá Ólaf Sigurgeirsson sem er annar frá vinstri, Helga Thorarensen, þá kemur ráðherrann, Dr. Taiga, og næstur honum er Davíð Benhaim. Mynd af heimasíðu Háskólans á Hólum.
Starfsmenn Háskólans á Hólum hafa gert víðreist að undanförnu. Í nóvember var Ólafur Sigurgeirsson í Moskvu fyrir hönd skólans þar sem hann var þátttakandi í verkefninu „Nordic-Russian Centre for research and innovation in Aquaculture“. Verkefnið er leitt af Háskólanum í Tromsö í Noregi, en að auki koma að því Háskólinn í Múrmansk (Murmansk State Technical University) og MSUTM (K.G.Rasumovsky Moscow State University of Technologies and Management) í Moskvu. Frá þessu er sagt á heimasíðu Háskólans á Hólum.
Í Rússlandi er nú mikil áhersla lögð á að auka eigin matvælaframleiðslu og er liður í því að efla kennslu og rannsóknir í fiskeldi. Er markmið verkefnisins að auka tengsl og samstarf milli rússneskra og norrænna háskóla og að auka tengsl og greina samstarf háskólanna við fyrirtæki sem starfa í fiskeldi, þvert á landamæri. Haldnir voru fundir og ráðstefna í Moskvu í tengslum við verkefnið og auk þess var vígð ný rannsóknar- og kennsluaðstaða við MSUTM. Myndir frá heimsókninni og nánari umfjöllun má sjá hér.
Þessa dagana eru sérfræðingar Háskólans á Hólum, þeir David Benhaim, Ólafur Sigurgeirsson og Helgi Thorarensen, í Kamerún þar sem þeir halda námskeið um fiskeldi. Áður en námskeiðið hófst hittu þeir dr. Taiga en hann er ráðherra landbúnaðarmála er lúta að fisk- og kjötframleiðslu. Hefur hann unnið ötullega að því að byggja upp fiskeldi í Kamerún, bæði með því að styðja við stofnun nýrra fiskeldisstöðva og með námskeiðahaldi. Námskeiðið sem þremenningarnir kenna á er haldið að frumkvæði dr. Taiga.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.