Hornfirðingar rændu Húnvetninga í blálokin

Lið Kormáks/Hvatar fékk Hornfirðingana í Sindra í heimsókn á Blönduósvöll í gærdag. Fyrir umferðina sat lið heimamanna þægilega í efri hluta 3. deildarinnar en gestirnir hafa verið að gera sig digra í toppbaráttunni og máttu illa við því að tapa stigum. Allt stefndi þó í að liðin skiptu stigunum á milli sín en skömmu fyrir leikslok tókst Sindra að koma boltanum í mark heimamanna og fóru því alsælir heim á Höfn. Lokatölur 0-1.

Það var Abdul Banguna sem gerði markið á 87. mínútu og fátt til frásagnar nema kannski að leikmenn Kormáks/Hvatar, sem voru án þjálfara síns að þessu sinni en Aco Pandurevic var í banni eftir að hafa fengið rauða spjaldið í leiknum á undan, fengu sex sinnum að líta gula spjaldið hjá dómara leiksins.

Svekkjandi tap því niðurstaðan og lið Kormáks/Hvatar færist niður fyrir miðja deild með 20 stig sem fyrr. Leiknar hafa verið 15 umferðir og því sjö eftir og 21 stig í pottinum. Lið KFG og Dalvíkur/Reynis eru efst með 31 stig og Sindri er í þriðja sæti með 28 stig. Neðstu tvö liðin eru KH með 11 stig og ÍH með 10 stig. Lið Húnvetninga siglir því lygnan sjó í deildinni en næsti leikur strákanna er í Eyjum þar sem lið KFS bíður þeirra.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir