Hrossaveisla Söguseturs íslenska hestsins

Sögusetur íslenska hestsins boðar til hrossaveislu í samstarfi við Hótel Varmahlíð og Veitingastaðinn Friðrik V. á Akureyri, laugardagskvöldið 18. október, kl. 19.30 á Hótel Varmahlíð.

 

Hinn landsþekkti og margverðlaunaði veitingamaður Friðrik V. ásamt Þórhildi Maríu Jónsdóttur, matreiðslumeistara á Hótel Varmahlíð, töfra fram fjögurra rétta matseðil, þar sem hrossið verður í aðalhlutverki.

 

Þá verður boðið uppá fjölbreytta skemmti- og fræðsludagskrá. Friðrik V. mun fræða fólk um margskonar möguleika í matreiðslu á hrossa- og folaldakjöti. Þá mun Hrafnkell Lárusson, sagnfræðingur  fjalla um hrossakjötsneyslu landsmanna, frá almennu forboði til daglegrar neyslu. Auk þess mun Jói í Stapa kveða forboðnar vísur og Gunnar Rögnvaldsson taka lagið með gestum.

 

Hér er því einstakt tækifæri fyrir fólk að eiga notalega kvöldstund, samhliða því að kynna sér forvitnilega sögu hrossakjötsneyslu, bragða á gómsætum réttum og fara heim með nýjar hugmyndir að veislumat – ekki amalegt að kunna að matreiða hross á krepputímum.

 
Verð er aðeins 4.200 og  borðapantanir fara fram á info@hotelvarmahlid.is eða í síma 453 8170

Fleiri fréttir