Húfan úr rústum Þingeyraklausturs reyndist vera hið snotrasta höfuðfat

Húfan hreinsuð og forvarin. MYND AF FACEBOOK-SÍÐU VERKEFNISINS
Húfan hreinsuð og forvarin. MYND AF FACEBOOK-SÍÐU VERKEFNISINS

Feykir sagði frá því í ágúst að við uppgröft í rústum Þingeyraklausturs hafi rannsóknaraðilar komið niður á merkilega gröf sem talin var tilheyra Jóni Þorleifssyni, klausturhaldara á Þingeyrum, sem lést árið 1683. Gullhringur og höfuðfat fannst í gröfinni og nú hefur húfan sem fannst verið hreinsuð og forvarin.

Það var Sandra Sif Einarsdóttir forvörður hjá Þjóðminjasafni Íslands sem hafði veg og vanda af þeim gjörningi. Í frétt á Facebook-síðunni Grafið í rústir Þingeyraklausturs segir að húfan sé úr silki (flaueli) og á henni eru blúndur, kniplaðar úr silfurþræði.

Áður hafði húfan verið fryst til þess að drepa öll skordýr í henni. Við hreinsun kom í ljós að húfan var fyllt með hálmi.

Á Facebook-síðunni er hægt að fylgjast með helstu fréttum af uppgreftrinum og þeirri vinnu sem unnin er í kjölfarið. Í frétt Feykis frá í ágúst má sjá hvernig húfan leit út þegar hún fannst.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir