Hugað að umhverfinu í Húnaþingi vestra
Umhverfisnefnd Grænfánaverkefnis Grunnskóla Húnaþings vestra, Umhverfisstjóri Húnaþings vestra og nemendur Grunnskóla Húnaþings vestra vilja leggja sitt af mörkum í baráttunni við plastið, en plastpokar og annar plastúrgangur er víða orðið alvarlegt umhverfisvandamál þar sem eyðingartími plasts í náttúrunni er mörghundruð ár.
Kaupfélag Vestur Húnvetninga ásamt Sláturhúsi KVH og Kvennabandinu sáu til þess með fjárstuðningi að hægt væri að gefa fjölnota burðarpoka og segul inn á öll heimili í Húnaþingi vestra. Nemendur grunnskólans sáu um myndskreytingar og hönnun seglanna, en tilvalið er að setja þá á ísskápinn til að minna á mikilvægi flokkunar.
Næstu daga munu heimili í Húnaþingi vestra fá dreifibréf um mikilvægi þess að draga úr notkun plastpoka, ásamt fjölnota burðarpoka og segli. Á Hvammstanga munu nemendur grunnskólans dreifa þessu sjálf til íbúa en aðrir fá þetta sent með Póstinum. Sagt er frá þessu á vef Norðanáttar.