Hugmynd um þverun Hrútafjarðar við Reyki
Í umsögn sinni um samgönguáætlun til ársins 2022 lagði félagið Leið ehf. fram nokkrar hugmyndir um styttingu hringvegarins milli Reykjavíkur og Akureyrar. Húnavallaleið hefur mest verið í umræðunni en hún hefur nú verið slegin af. Leið ehf. lagði einnig fram hugmynd að þverun Hrútafjarðar, við Reykjaskóla og yfir á Laxárdalsheiði. Gekk sú hugmynd einnig út á að gera jarðgöng undir Bröttubrekku og koma þannig með nýja leið í stað Holtavörðuheiðar.
Húni.is greindi frá þessu í gær en þar segir að hugmynd Leiðar um þverun Hrútafjarðar sé ekki ný af nálinni því árið 2006 benti fyrirtækið á að þörf væri á úrbótum á hringveginum í Hrútafirði. Í því sambandi var bent á að þverun Hrútafjarðar á móts við Reyki þar sem Reykjaskóli er og yfir á Kjörseyri á Ströndum myndi stytta leiðina fyrir fjörðinn milli Vestfjarða og Norðurlands um 30 kílómetra.
Eftir sameiningu Bæjarhrepps og Húnaþings vestra hafa forsendur breyst og það geti verið spennandi að skoða þennan áhugaverða kost, segir á Húna.is en með þessari aðgerð mætti efla samstarf, auka samgang og treysta betur byggð í Húnaþingi vestra, Dölum og á sunnanverðum Ströndum.