Hugmyndir um að loka Háholti leggjast illa í Skagfirðinga

Á vef Ríkisútvarpsins segir af því að Skagfirðingum hugnist illa sú hugmynd að leggja meðferðarheimilið Háholt í Skagafirði niður. Barnaverndarstofa hefur málefni Háholts til skoðunar og hefur lagt til við Velferðarráðuneytið að opnuð verði ný stofnun í Reykjavík sem myndi hugsanlega leysa Háholt af hólmi.

Samningur við núverandi rekstraraðila meðferðarheimilisins rennur út í sumar.

RÚV hefur eftir Bjarna Jónssyni, forseta sveitarstjórnar Skagafjarðar, að heimamenn hafi áhyggjur af þessari umræðu enda sé Háholt mikilvægur vinnustaður á svæðinu, með tæplega 20 starfsmenn í 14 og hálfu stöðugildi. Það væri illt til þess að hugsa að þau störf myndu tapast til viðbótar við þau 60 opinberu störf sem hefðu horfið úr héraðinu síðustu tvö til þrjú ár.

Bjarni segir að vel sé hægt að búa jafnvel að umhverfi og öryggisþáttum meðferðarheimilisins í Skagafirði og annars staðar á landinu. Húsnæði Háholts var byggt sérstaklega fyrir starfsemina og fagleg umgjörð og stoðumhverfi fyrir þessa starfsemi í héraðinu sé góð. Eðlilegt sé að fara yfir hvernig hægt sé að hafa umgjörðina um starfsemina sem besta, skerpa á öryggisþáttum og að sjálfsögðu að tryggja sem best öryggi barnanna sem í hlut eigi, starfsmanna og nærumhverfisins

Fleiri fréttir