Hugrún afgreiddi Augnablik

Mur með skalla að marki gestanna í síðari hálfleik. MYND: ÓAB
Mur með skalla að marki gestanna í síðari hálfleik. MYND: ÓAB

Tindastóll og Augnablik úr Kópavogi mættust á Króknum í kvöld í Lengjudeild kvenna. Stólastúlkur hafa farið vel af stað í deildinni og deildu toppsætinu með liði Keflavíkur fyrir leikinn og gera enn að leik loknum því Tindastóll sigraði 1-0 með marki sem Hugrún Páls gerði um miðjan fyrri hálfleik. Lið heimastúlkna skapaði sér fleiri góð færi í leiknum en andstæðingarnir og verðskulduðu því sigurinn.

Leikið var á gervigrasinu í smávegis hliðarvindi úr köldu norðrinu. Lið Augnabliks er nokkurs konar varalið Breiðabliks og margar efnilegar ungar stúlkur í liðinu, meðalaldur leikmanna 17 ár. Þær kunnu því ýmislegt fyrir sér á vellinum og spiluðu oft ágætlega sín á milli. Vörn Tindastóls var hins vegar sterkt og gaf fá færi á sér. Framan af leik var mikið reynt að koma boltanum hratt og örugglega fram á Mur en touch-ið hennar var ekki gott í kvöld og sendingarnar kannski full erfiðar fyrir hana.

Það var lið Tindastóls sem fékk fyrsta dauðafæri leiksins þegar María Dögg fékk boltann inn fyrir vörn gestanna en hitti ekki boltann. Tíu mínútum síðar kom eina mark leiksins en þá fékk Hugrún boltann við hægra vítateigshornið, hún komst framhjá tveimur leikmönnum áður en hún renndi boltanum í markið. María kom boltanum í mark Augnablika skömmu síðar en var dæmd rangstæð. Fátt markvert gerðist fram að hléi.

Tindastólsliðið fékk nokkur fín færi á fyrsta stundarfjórðungi síðari hálfleiks. Laufey Harpa setti boltann í þverslá og markvörður gestanna hafði lukkuna með sér í liði í nokkur skipti. Það var eins og þolinmæðina skorti aðeins í leik heimastúlkna og það lægi helst til of mikið á að gulltryggja sigurinn. Það fór svo að gestirnir komust betur inn í leikinn síðustu mínúturnar þegar leitað var að jöfnunarmarki. Einhvernveginn voru þær þó aldrei líklegar til að skora og það var ekki oft sem Amber í marki Tindastóls þurfti að taka á honum stóra sínum. 

Lokatölur sem fyrr segir 1-0 og þar sem lið Keflavíkur sigraði líka í kvöld þá eru liðin enn jöfn á toppnum en Suðurnesjastúlkurnar duglegri að skora og eru því á toppnum. Vörn Tindastóls með þær Hallgerði, Laufeyju, Sóveigu Birtu og Bryndísi fyrirliða, sem var heiðruð fyrir að hafa spilað 100 leiki fyrir lið Tindastóls áður en flautað var til leiks, voru mjög sterkar og ekki skemmir fyrir að hafa góðan stjórnanda í markinu. Það var síðan hart barist á miðjunni en Hugrún átti fína spretti á hægri kantinum og reyndist Augnablikum erfið. Varnarmenn gestanna voru klókir í samskiptum sínum við Mur og héldu henni lengstum í skefjum – svona eins og hægt er.

Næst mætir lið Tindastóls Gróttu á Vivaldivellinum á Seltjarnarnesi fimmtudaginn 16. júlí en Gróttuliðið er taplaust eftir fjórar umferðir, hefur unnið tvo leiki og gert tvö jafntefli. Áður en að þeim leik kemur fara stelpurnar á svipaðar slóðir, mæta nefnilega liði KR í Mjólkurbikarnum á Meistaravöllum nú á föstudag kl. 19:15. Allir á völlinn – áfram Tindastóll!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir