Hugsað um barn í Árskóla
Nemendur 9. bekkjar Árskóla á Sauðárkróki taka nú þátt í heilbrigðis- og forvarnarverkefninu „Hugsað um barn" þessa dagana en þá bregða krakkarnir sér í hlutverk „foreldra" í rúmlega tvo sólarhringa og annast „ungabarn" allan sólarhringinn.
Eftir að hafa fengið fræðslu frá Ólafi Grétari Gunnarssyni, sem kom færandi hendi í skólann með rúmlega 30 „raunveruleikabörn" (dúkkur sem líkja eftir 3 mánaða ungabörnum) fengu nemendur krílin í hendurnar og tókust á við hið nýja, tímabundna hlutverk. Aðeins 3 af 36 nemendum völdu að losna undan foreldrafélaginu og fengu þeir í staðinn það verkefni að skrifa ritgerð tengt börnum og uppeldi.
Í morgun mátti sjá hópinn ganga um götur Sauðárkróks með ungabörnin en það var gert í íþróttatímanum. Greina mátti hjá strákunum að þeim þótti verkefnið misáhugavert enda lítið „rokk“ í að vera pabbi á þessum aldri. Stúlkurnar virtust áhugasamari um að „börnunum“ liði vel og ekkert feimnar við að sýna þeim þá blíðu sem jafnvel þau þurfa á að halda. Ekki hefur gengið alveg slysalaust að ala börnin þennan tíma því þrjú þeirra hafa „látist“ eftir slæmt atlæti eða einhver mistök uppalenda enda ekki sama hvernig farið er með þau þar sem þau líkja eftir raunverulegum börnum t.d. séu þau hrist illilega er hætta á að þau fái „shaken baby syndrome“ sem orsakast af harkalegum hristingi.
Að sögn Kára Maríssonar kennara felst mikil fræðsla í slíku verkefni og eykur og eflir samskipti milli krakkanna sjálfra.
Í lok verkefnisins verður lesið úr gögnum „barnanna“ þar sem kemur í ljós hvernig krakkarnir hafa staðið sig í uppeldishlutverkinu og rætt um hvað hefði betur mátt fara. Verkefnið er talið falla vel að námskrá skólans í lífsleikni og til eflingar jafnréttisumræðu.