Hugsanleg mygla í leikskólanum Glaðheimum
Foreldrum barna á yngra stigi leikskólans Ársala á Sauðárkróki, Glaðheimum, hefur verið tilkynnt um það að ráðast þurfi í frekari rannsóknir og sýnatökur eftir að sýni úr norðurvegg á deildinni Lóni kom úr rannsókn. Það er gert svo hægt sé að ákveða til hvaða frekari aðgerða verður gripið.
Nú þegar hefur verið ákveðið að taka borkjarnasýni úr vestur- og norðurveggjum Lóns sem og loftgæðasýni á öllum deildum yngra stigs. Á meðan á þeirri aðgerð stendur og verið er að rannsaka sýnin, verða börnin flutt frá Lóni og yfir í sal leikskólans líkt og gert var á síðasta ári þegar verið var að eiga við myglu undir gólfdúk.
Í niðurstöðum Náttúrufræðistofnunar Íslands, sem rannsakaði sýnin, segir að greiningin sé ekki örugg en það sem öruggt var að það voru merki um myglu í sýninu en magn hennar var hins vegar tiltölulega lítið.
Leitað hefur verið eftir ráðgjöf og aðstoð frá verkfræðistofunni Eflu, hús- og heilsudeild, um aðgerðir til úrbóta á húsnæðinu.
Tengd frétt Myglusveppur greindist í gólfdúk