Síðasti Feykir ársins 2025 kominn úr prentun
Þá er kominn út síðasti Feykir ársins 2025. Svokallað jólakveðjublað enda fullt af jólakveðjum og auglýsingum og sennilega hefur þetta síðasta blað fyrir jól aldrei verið stærra, heilar 36 síður. Að sjálfsögðu er blaðið stútfullt af áhugaverðum umfjöllunum og viðtölum. Blaðið fer í drefingu í dag en er þegar opið í rafrænni áskrift.
Sigrún Davíðsdóttir á Hvammstanga segir frá Saunasetrinu sem hún hefur komið á laggirnar, Sara Björk Þorsteinsdóttir forstöðumaður farsældarráðs Norðurlands vestra sýnir á sér hina hliðina í Rabb-a-babbi og Freydís Bergsdóttir er í Feykisspjalli en hún er ung hestakona frá Narfastöðum sem er orðin spennt fyrir Landsmóti hestamanna á Hólum. Þá er áhugavert viðtal við sr. Karl V. Matthíasson sem leysir nú af sem prestur í Skagafirði en hann hefur frá ýmsu að segja sem er umhugsunarvert.
Megin efni blaðsins er umfjöllun um félagsheimilið Bifröst á Sauðárkróki sem varð 100 ára í ár. Við spurðum Sölva Sveins í haust hvort hann vissi ekki eitt og annað um húsið sem hann gæti rifjað upp fyrir lesendur. Sölvi sagðist ætla að hugsa málið en var svo búinn að skila texta nokkrum tímum síðar. Það þarf stundum ekki að kveikja nema lítinn neista til að úr verði mikið bál. Þá fengum við nokkra aðila til viðbótar sem tengst hafa Bifröst mismikið til að rifja upp bestu og elstu minningar sínar úr þessu húsi sem á svo stóran sess í hjarta okkar. Þeir sem voru beðnir að svara voru meira en til í það – og ekki var skortur á minningum. Vonandi geta lesendur yljað sér við lesturinn og jafnvel rifjað upp sínar eigin minningar frá sælustundum í Bifröst.
Þá er risastóra Jólakrossgátan hans Palla að sjálfsögðu í blaðinu ~ enda næstum jafn ómissandi partur af jólunum og Jólamót Molduxa...
