Jólamót Molduxa haldið enn og aftur
Jólamót Molduxa verður haldið samkvæmt venju annan dag jóla en mótið er í hugum margra ómissandi þáttur í jólahefð Skagfirðinga. Samkvæmt bestu vitund talnagleggstu Molduxa er þetta mót það 32. sem haldið er.
Vel á annan tug liða hafa jafnan tekið þátt og eru þátttakendur á öllum aldri. Líkt og sr. Friðrik hvatti til forðum er kappsemin ekki látin bera fegurðina ofurliði og er því starfandi kærunefnd sem sér um að farið sé að reglum mótsins.
Líkt og undanfarin ár verður við setningu mótsins veitt Samfélagsviðurkenning þeim einstaklingi sem þótt hefur sómt sér vel og innt af hendi dugmikið og óeigingjarnt starf til heilla samfélaginu í Skaga-firði. Verður þetta í 9. skiptið sem Molduxar veita þessa viðurkenningu.
Áhugasamir eru hvattir til að skrá sig tímanlega til leiks og áhorfendur að mæta snemma. Skráning fer fram á netfanginu pilli@simnet.is en frekari upplýsinga er hægt að nálgast á Facebook-síðu Molduxa.
Íslandi allt!
/fréttatilkynning
