Húnaþing vestra auglýsir eftir verkefnastjóra vegna móttöku flóttafólks.
Húnaþing vestra auglýsir eftir verkefnastjóra til að hafa umsjón með móttöku flóttafólks í Húnaþingi vestra og þjónustu við það. Starfið sem um ræðir verður 25% - 50% til að byrja með, 100% hluta tímans og 50% síðari hlutann og er tímabundið til 1-1 ½ árs. Nauðsynlegt er að viðkomandi geti hafið störf sem fyrst.
Í auglýsingu á vef sveitarfélagsins segir:
„Sveitarstjórn Húnaþings vestra hefur lýst yfir vilja sínum til að leysa vanda fólks sem neyðst hefur til að flýja heimaland sitt vegna ofsókna, með því að ganga til samninga við félagsmálaráðuneytið um móttöku flóttamanna frá Sýrlandi. Um er að ræða 25 einstaklinga í 4-6 fjölskyldum, þar af um 15 börn. Lögð er áhersla á að veita fólkinu heilstæða þjónustu sem stuðlar að öryggi og aðlögun hinna nýju íbúa.
Starfið er fólgið í því að hafa umsjón með móttöku flóttafólksins og þjónustu við það. Starfið felur í sér náið samstarf við svið og stofnanir sveitarfélagsins, Rauða krossinn, félagsmálaráðuneytið og aðra aðila innan og utan sveitarfélagsins. Verkefnastjóri skipuleggur fræðslu og kynningar til flóttafólksins og þeirra sem að málum þess koma. Lögð er áhersla á heildstæða þjónustu og þverfaglega vinnu og að nýir íbúar nái að finna fyrir öryggi og kynnast nýjum tækifærum.“
Umsækjendur um starfið skulu hafa háskólamenntun sem nýtist í starfi og góða tungumálakunnáttu í talaðri og ritaðri íslensku og ensku. Nauðsynlegir eiginleikar eru frumkvæði, sjálfstæði og nákvæmni í vinnubrögðum og framúrskarandi hæfni í mannlegum samskiptum. Einnig er æskilegt að hafa haldbæra reynslu í verkefnastjórnun og góða þekkingu á úrræðum samfélagsins, málaflokknum og atvinnulífi.
Umsóknarfrestur er til og með 11. mars 2019. Umsóknum, ásamt ítarlegum starfsferilskrám og kynningarbréfi þar sem gerð er grein fyrir ástæðu umsóknar og með rökstuðningi fyrir hæfni viðkomandi í starfið, skal skilað til sveitarstjóra Húnaþings vestra á netfangið gudny@hunathing.is Sveitarfélagið hvetur konur jafnt sem karla til að sækja um starfið.
Nánari upplýsingar veitir Jenný Þórkatla Magnúsdóttir, sviðsstjóri fjölskyldusviðs Húnaþings vestra í síma 455-2400 eða í gegnum netfangið jenny@hunathing.is
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.