Húnavakan hefst í kvöld

Húnavaka verður haldin nú um helgina og er dagskráin hin veglegasta að vanda. Hefst hún strax í kvöld þegar íbúar drífa sig út og skreyta umhverfi sitt kvöld með rauðu skrauti og ísbjörnum. Klukkan 21:00 byrjar svo BlöQuiz í Félagsheimilinu þar sem fólki gefst gott tækifæri á að láta reyna á heilasellurnar.

Að vanda verða fyrirtæki á staðnum með opið hús á föstudag og um kvöldið verður kótelettukvöld í Félagsheimilinu. Að því loknu verður fjölskyldudansleikur með Stuðlabandinu sem heldur að honum loknum stuðinu uppi fram á nótt á stórdansleik fyrir 16 ára og eldri.

Á laugardag verður fjölmargt í boði. Má þar nefna golfmót, söngkeppni barnanna, Míkróhúninn, Blönduhlaup USAH, dagskrá við Félagsheimilið og Höskuldsmótið hjá Skotfélaginu Markviss. Einnig má nefna orgeltónleika Eyþórs Franzsonar Wechner í Blönduósskirkju og kvöldvökuna árvissu í Fagrahvammi. Um kvöldið verður hljómsveitin Albatross með stórdansleik í Félagsheimilinu.

Leikhópurinn Lotta sýnir Gosa á sunnudagsmorgun og um hádegi hefst hin árlega prjónaganga. Klukkan 13 verður afhjúpað upplýsingaskilti í kirkjugarðinum og svo verður hægt að gæða sér á kaffi og kökum í Húnabúð um miðjan daginn.

Sýningar og söfn verða opin og fjölmargt fleira verður í boði.

Trúlega er vissara að hafa regnhlífina meðferðis en veðurspáin gerir ráð fyrir þokkalega hlýju veðri og fremur lygnu þó engu sé að treysta í þeim efnum.

Dagskrá Húnavöku má finna á Facebooksíðunni Húnavaka.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir