Húnvetningar verða að fara að rífa sig í gang

Það var leikið í 3. deildinni á Blönduósvelli í dag þar sem Kormákur/Hvöt fékk Garðyrkjumenn úr Víði í heimsókn á lífræna grasið. Heldur hefur blásið á móti Húnvetningum að undanförnu og ekki minnkaði ágjöfin í dag, í norðanstrekkingnum, því tveir leikmenn heimaliðsins fengu að líta rauða spjaldið og einn til viðbótar í liðsstjórn. Víðismenn fóru sigurreifir með öll þrjú stigin heim í Garð eftir 1-3 sigur.

Heimamenn fóru ágætlega af stað og markamaskínan Hilmar Þór Kárason kom þeim yfir eftir 17 mínútna leik. Það hefði ekki verið ósanngjarnt að leikmenn Kormáks/Hvatar hefðu bætt við marki fyrir hlé og náð þar með betri stjórn á leiknum. Því náðu þeir þó ekki og það kom í bakið á þeim því á tólf mínútna kafla um miðjan síðari hálfleik gerðu Víðismenn þrjú mörk. Fyrst skoraði Jóhann Arnarsson á 61. mínútu, Andri Fannar Freysson kom Víði yfir á 65. mínútu og á 72. mínútu gerði Atli Pálsson þriðja mark gestanna. Fjórum mínútum síðar var Antonio Garcia, markverði heimamanna, vísað af velli sem varð til að veikja vonir um endurkomu heimaliðsins. Á sjöttu mínútu uppbótartíma fékk síðan Ingvi Rafn rautt spjald sem heimamenn voru vægast sagt ósáttir með og fylgdi Björn Vignir, í liðsstjórn Kormáks/Hvatar, Ingva af velli eftir að hafa einnig fengið að líta rauða spjaldið í framhaldinu.

Sigurður Bjarni Aadnegard, fyrirliði Kormáks/Hvatar, tjáði Feyki að hans menn hefðu átt að gera betur í fyrri hálfleik og vera skynsamari í leik sínum í þeim seinni. Aðspurður hvort hann teldi lið sitt vera komið í fallbaráttu sagði hann: „Auðvitað erum við nánast i henni en [ég] hef ekki miklar áhyggjur, hin liðin [þrjú fyrir neðan Kormák/Hvöt] þurfa að vinna þrjá leiki og við að tapa öllum og það eru fimm leikir eftir. Þurfum bara að rífa okkur í gang, vinna 1-2 leiki, þa er þetta komið,“ segir Siggi brattur.

Staða Kormáks/Hvatar er ágæt enn, liðið er í níunda sæti 3. deildar með 20 stig en þar fyrir neðan eru lið ÍH og KH með 14 stig og Vængir Júpiters með 13. Fimm umferðir eru eftir og það þyrfti ansi mikla ólukku til til að lið Húnvetniinga félli. Það er þó mikilvægt að liðið haldi sínum helstu gæðingum inni á vellinum. Áfram Kormákur/Hvöt!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir