Húnvetnsk teppi á leið í Flugstöð Leifs Eiríkssonar
Í morgun, miðvikudag, voru sett upp prjónuð teppi í Flugstöð Leifs Eiríkssonar en teppin eru afrakstur samstarfsverkefnis í tilefni af 100 ára fullveldisafmæli Íslands en Textílsetur Íslands hlaut veglegan styrk til að taka þátt í verkefninu.
,,Upphafið að verkefninu má rekja til þess að Ólöf S. Lárusdóttir hjá Isavia, hafði samband við Ragnheiði Ingimarsdóttur, framkvæmdastjóra afmælisnefndarinnar um 100 ára fullveldi Íslands, með þá hugmynd að fá súlur í flugstöðinni skreyttar. Ragnheiður benti á okkur í Textílsetrinu þar sem Blönduós væri orðinn þekktur fyrir prjónagraffið sitt,“ útskýrir Jóhanna Erla Pálmadóttir, framkvæmdastjóri Textílseturs Íslands.
Textílsetrið hlaut styrk til þess að taka þátt í hátíðarhöldunum og var eitt af verkefnunum samstarf við grunnskóla í Austur-Húnavatnssýslu. Markmið verkefnisins var að auka þekkingu og innsýn nemenda í það hve samofin ullin og prjónaskapur er þjóðararfi og sögu landsins.
Nemendur og starfsfólk Blönduskóla, Húnavallaskóla og Höfðaskóla prjónuðu stykki í fánalitunum sem nemendur Concordia háskólans í Kanada, er dvöldu í Kvennaskólanum í júní, aðstoðuðu við að sauma saman í teppi ásamt fleira góðu fólki. Teppin voru til sýnis á Prjónagleðinni sem haldin var á Blönduósi, aðra helgina í júní.
Eftir að Prjónagleðinni lauk var hafist handa við það að bæta inn í teppin ýmiskonar prjónlesi sem prjónagraffarar á Blönduósi hafa prjónað síðustu vikur. Teppin munu prýða súlur í brottfararsal flugstöðvarinnar og verða þar eitthvað fram á næsta ár.
/Lee Ann
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.