Húsnæðismálin stærsti þröskuldurinn

Blönduós. Mynd:Northwest.is
Blönduós. Mynd:Northwest.is

Sveitarstjórn Blönduósbæjar hefur óskað eftir samstarfi vð Skagaströnd við lausn á húsnæðismálum fyrir hóp flóttafólks sem væntanlegur er til Blönduóss innan tíðar en ákveðið hefur verið að 50 sýrlenskir flóttamenn komi til Blönduóss og í Húnaþing vestra um mánaðamótin apríl-maí.

Í hópnum sem um ræðir er fjölskyldufólk frá Sýrlandi, í flestum tilfellum foreldrar með eitt til þrjú börn og hefur fólkið dvalið í flóttamannabúðum í Líbanon. Ætlunin er að hópurinn skiptist nokkuð jafnt á sveitarfélögin tvö. Í síðustu viku var haldinn fjölsóttur upplýsingafundur um málið á Hvammstanga og ráðgert er að halda sambærilegan fund á Blönduósi í næstu viku.

Rætt var við Valdimar O. Hermannsson, sveitarstjóra Blönduósbæjar, í hádegisfréttum RÚV í gær. Valdimar segir að næstu skref séu að skipuleggja móttökuna, stofna stuðningsfjölskyldur, gera ráðstafanir í skólum og félagsþjónustu og finna húsnæði. Eins og komið hefur fram í fréttum hefur íbúum á Blönduósi fjölgað hratt undanfarið og því ekki margar íbúðir á lausu en að sögn Valdimars hefur verið óskað eftir samstarfi við Skagaströnd. „Þar gæti verið húsnæði og við erum saman í byggðasamlagi um skóla og félagsþjónustu. Það verður svona stærsti þröskuldurinn að finna húsnæði bæði til skamms og langs tíma,“ sagði Valdimar sem er bjartsýnn á að lausn finnist og íbúar staðarins muni styðja verkefnið af heilum hug.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir