Hvað á að gera þegar komið er að slysi?

„Dásamlegu krakkarnir okkar sem komu að slysinu gerðu allt rétt,“ segir Ásdís Ýr Arnardóttir, sérfræðingur hjá Lögreglunni á Norðurlandi vestra, þegar Feykir leitaði eftir upplýsingum hjá henni um hvað beri að gera þegar komið er að slysi, líkt og varð við Hofsós sl. föstudag. Þá slösuðust fjórir piltar á aldrinum 17-18 ára alvarlega í bílslysi en um 30 ungmenni voru á leið í veislu á Hofsósi og voru á vettvangi þegar viðbragðsaðilar komu að.

Mörgum þykir ónotaleg sú tilhugsun að koma að slysi og efast kannski um að þeir viti hvernig bregðast á við. En hvað á að gera þegar komið er að slysi? Það var Guðmundur Sindri lögreglumaður sem tók saman eftirfarandi upplýsinga.

Aðkoma að slysi

Þegar þú kemur að slysi er þér skylt að veita þá aðstoð sem þú getur.

Fyrsta skref er að tryggja þitt eigið öryggi og að vettvangur sé öruggur áður en þú ferð af stað inn á vettvanginn. Hetjustælar hjálpa ekki, ef þú veður inn á óöruggan vettvang getur það orðið til þess að nú þurfi viðbragðsaðilar að bjarga einum fleiri. Stundum er það eina sem þú getur gert er að hringja eftir hjálp.

Næsta skref er að hringja eftir aðstoð. Það getur verið gott að einn aðili hringi eftir aðstoð á meðan annar aðili fari strax í þriðja skref, ef fleiri en einn aðili kemur á staðinn. Gott er að hafa í huga og vera búinn að kynna sér hvaða upplýsingum er mikilvægt að koma til neyðarlínu þegar hringt er eftir aðstoð. (Samtal við 1-1-2)

Þriðja skref er að meta aðstæður og koma áleiðis til neyðarlínu hversu margir eru slasaðir, hvort fólk sé fast og hvernig aðstæður á vettvangi séu. Þetta er gert til að neyðarlína geti strax sent viðeigandi aðstoð á vettvang þar sem oft getur verið langt í fyrsta viðbragðsaðila.

Fjórða skrefið er skyndihjálp. Þetta skref byrjar frá því að þú ræðir við fyrsta aðilann í slysinu og þar til viðbragðsaðilar mæta á svæðið. Skyndihjálp getur verið allt frá því að tala við einstakling eftir slys allt að endurlífgun. Það er gríðarlega mikilvægt að allir hafi grunnþekkingu á skyndihjálp og gefi sér tíma í að kynna sér hana. En við erum ekki öll eins og það er mikilvægt að við reynum okkar besta eftir okkar bestu getu og þekkingu.

Fimmta skref. Nú eru viðbragðsaðilar komnir á vettvang og taka við. Þú mátt samt búast við því að þeir biðji þig um áframhaldandi aðstoð.

Sjötta skrefið er þegar þú kemur heim. Mikilvægt er að þú hugsir um sjálfan þig þar sem aðkoma að slysi getur tekið gríðarlega á. Það gott að ræða hlutina við fjölskyldu eða vini og að hafa samband við fagaðila ef maður telur sig þurfa þess.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir