Hvatarsigur í gær og 3 rauð spjöld

Húni segir frá því að Hvöt tók í gær á móti liði KV úr vesturbæ Reykjavíkur á Blönduósvelli í smá rigningu og andvara. Leikurinn var aldrei í hættu fyrir heimamenn ef undan eru skildar síðustu fimm mínútur leiksins en heimamenn sigruðu 3-1 þar sem tveimur leikmönnum KV var vikið verðskuldað af velli og einum aðstoðarmanni á bekknum.

Leikurinn fór nokkuð rólega af stað og fyrsta færi leiksins leit ekki dagsins ljós fyrr en á 12. mínútu er Egill Björnsson átti gott skot að marki KV en það fór háfínt yfir. Þremur mínútum síðar var brotið á Bjarna Pálmasyni rétt fyrir utan vítateig gestanna en Jón Kári skaut yfir úr ákjósanlegu færi. Það var síðan á 23. mínútu að fyrsta mark leiksins kom. Þar var að verki Mirnes Smajlovic en hann skoraði þá með hælnum eftir skvaldur í teignum. Það tók gestina hins vegar ekki nema 7 mínútur að jafna leikinn er þeir fengu víti eftir að varnamaður Hvatar hafði skotið boltanum í einn gestanna og þaðan fór boltinn í hönd varnarmannsins. Úr vítinu skoraði Björn Ívar Björnsson.

Mirnes var heitur í þessum leik og á 37. mínútu átti hann fínann skalla á mark gestanna en hann var varinn nánast á marklínunni en tveimur mínútum fyrr vildu heimamenn fá víti þegar Bjarna Pálma var kastað til í teignum eftir aukaspyrnu utan af velli en ekkert dæmt. Mirnes var síðan aftur á ferðinni á 44. mínútu og skoraði sitt annað mark eftir fína aukaspyrnu frá Óskari Vignissyni. Þarna létu Hvatarmenn finna vel fyrir sér og skoruðu þriðja markið á annarri mínútu uppbótartíma en þar var að verki Milan Markovic. Staðan því 3-1 í hálfleik og útlitið gott fyrir heimamenn.

Í upphafi síðari hálfleiks virtust heimamenn ætla að bæta við fleiri mörkum og sóttu stíft og átti Bjarni Pálma m.a. skot í utanverða stöngina eftir 5 mínútur í síðari hálfleik en eftir það dofnaði nokkuð yfir leiknum. Það var ekki fyrr en á 73. mínútu leiksins sem næsta markverða færi kom er Trausti Eiríksson komst einn í gegnum flata vörn gestanna en Stefán Friðriksson í marki KV sá við honum. Mínútu síðar var Egill Ólafsson leikmaður KV sendur í sturtu eftir suddalega sólatæklingu á Hilmari Þór Kárasyni. Sex mínútum síðar fauk markvörður KV, Stefán Friðriksson, af velli með rautt spjald er hann braut á Jóni Trausta Guðmundssyni er hann var að sleppa framhjá honum á vítateignum. Úr aukaspyrnunni varð ekkert.

Við það að missa tvo leikmenn af velli efldust gestirnir og fengu algjört dauðafæri á 86. Mínútu er einn leikmaður þeirra sólaði sig í gegnum vörn heimamanna en mætti þar Atla Jónassyni markverði sem varð vel skot hans í horn. Tveimur mínútum síðar fengu gestirnir vítaspyrnu sem Atli gerði sér lítið fyrir og varði glæsilega. Heimamenn fengu eitt færi í lokin en skalli Mirnes fór naumlega framhjá.

Mjög sanngjarn sigur heimamanna þrátt fyrir smá hikst hér og þar en fréttaritari getur ekki stillt sig um að skrifa aðeins um munnsöfnuð og háttarlag gestanna á varamannabekknum. Það er bara ekki sama hvað menn segja og gera og að tala um að langa inn á völlinn til að strauja helv….. serbana, það á bara ekki heima í knattspyrnu í dag. Það er líka undarlegt þegar lögð sé meiri áhersla á það að passa uppá að ekki sé fleiri en 1 maður fyrir utan skýlið í einu en mönnum leyfist að úthúða andstæðingunum og hrópa á spjöld allan leikinn án þess að á því sé tekið fyrr en á 87. mínútu leiksins.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir