Hvernig á að flokka?

Allur pappír má fara laus í grænu tunnuna. Mynd af Flokka.is
Allur pappír má fara laus í grænu tunnuna. Mynd af Flokka.is

Endurvinnslustöðin Flokka á Sauðárkróki birti í gær á vefsíðu sinni, flokka.is, upprifjun á því hvernig Skagfirðingar eiga að flokka úrganginn sinn sem fara á í grænu tunnuna. Þó flestir ættu nú að vera búnir að ná nokkuð góðum tökum á listinni að flokka er alltaf gott og gagnlegt að rifja upp og ekki er útilokað að reglurnar hafi tekið einhverjum breytingum frá upphafi, auk þess sem sömu reglur gilda ekki hjá öllum endurvinnslustöðvum og þeir sem flytja milli svæða þurfa að tileinka sér ný vinnubrögð við flokkunina. 

Á heimasíðu Flokku má auk þess finna ýmsan fróðleik, s.s. um magn þess sorps sem stöðin hefur tekið á móti. Til dæmis hafa 1.046 tonn af bylgjupappa borist þangað frá því stöðin tók til starfa þann 1. mars 2008, 2.845 tonn af heyrúlluplasti og 444 tonn af dagblöðum og tímaritum, svo eitthvað sé nefnt. 

En til hvers erum við að flokka. Á heimasíðu Flokku segir:

„Við erum að flokka til að ganga ekki endalaust á auðlindir jarðarinnar. Í stað þess að vera endalaust að höggva niður tré til að framleiða pappír, þá endurvinnum við þann pappír sem hefur þjónað sínu hlutverki, hvort sem það hlutverk hefur verið dagblað, kassi eða umbúðir utan af morgunkorni, nýtum svo pappírinn aftur í sama tilgangi. Við flokkum plast, bæði hart og lint, og sendum í endurvinnslu í stað þess að senda það í urðun á ruslahauga þar sem það tekur náttúruna hundruð ára að brjóta það niður."

Flokkunarreglurnar má finna hér.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir