Í öllum breytingum felast möguleikar og tækifæri :: Áskorandapenninn, Sigurður Hólmar Kristinsson

Enginn veit sína ævina fyrr en öll er, eru orð sem eiga vel við á þessari stundu. Aldrei hefði mér dottið í hug að ég ætti eftir að vera í þeim sporum að sitja og rembast við að koma á blað nokkrum orðum til birtingar í fjölmiðli. Þann heiður á ég að þakka Pétri Björnssyni, fyrrverandi stórvini mínum.

Sem barn og fram á unglingsár átti ég mér þann draum að verða bóndi og kom þá aðeins til greina að það skyldi verða á æskuslóðunum í Vesturhópi. Enda er þar um að ræða einhvern fegursta stað á jarðríki, eins og allir vita. Draumurinn um sveitasæluna leið þó hjá og það var á haustmánuðum 1989 sem leið mín lá til Skagafjarðar þar sem til stóð að sækja menntun, sem skyldi verða grundvöllur stórkostlegra framtíðaráætlana. Þær áætlanir breyttust þó fljótt þar sem að á vegi mínum varð yngismey frá höfuðstað Norðurlands, Hofsósi, sem hafði þegar gert sína eigin áætlanir.

Varð námsdvölin í Skagafirði því heldur styttri en ætlunin hafði verið en þess í stað lá leiðin til borgar óttans á suðvesturhorninu þar sem enn var stefnt að því að ganga hinn torfæra veg fræðanna. Ætlunin var þó aldrei að staldra lengur við í höfuðborginni en þann tíma sem það tæki að afla menntunar og réttinda. Dvölin í Reykjavík varð þó nokkuð lengri. Það var síðan sunnudagsbíltúr um Suðurlandsundirlendið sem varð til þess að fjölskyldan skyldi flytja sig um set og setjast að í Biskupstungum. Auglýsing í Bændablaðinu, eitt góðviðriskvöldið, varð til þess að ákveðið var að endurvekja æskudrauminn og lá leiðin norður yfir heiðar og var sest að í Eyjafjarðarsveit.

Draumurinn varð hins vegar skammlífur og var ákveðið að líta á önnur mið og að lokum lá leiðin þá í háskóla, í miðju efnahagshruni og komið vel fram yfir hefðbundinn skólaaldur. Fljótt á litið virðist þetta allt hafa verið tilviljanakennt og jafnvel framkvæmt án mikilla vangaveltna, sem var oftast raunin. Það var síðan síðla árs 2015 að loknu háskólanámi sem flutt var aftur í fjörðinn fagra þegar atvinnutækifæri bauðst þar sem háskólanámið skyldi nýtt.

Tilgangurinn með þessum pistli er ekki að rita inngang að ævisögu undirritaðs heldur reyna að sýna fram á að í öllum breytingum felast möguleikar og tækifæri. Gætum okkar að festast ekki í einhverju fari af þeirri ástæðu einni að það er auðveldara en að taka sig upp og breyta til og látum óttann við hið óþekkta ekki koma í veg fyrir að við reynum eitthvað nýtt. Það er að mínu mati mun ánægjulegra að horfa yfir farinn veg og rifja upp minningar um allt það sem gert hefur verið en að vera fullur eftirsjár vegna þess sem aldrei var reynt. 

Ég skora á Magnús Magnússon, sóknarprest á Hvammstanga að taka við keflinu.

Áður birst í 41. tbl. Feykis 2020

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir