Íbúa-og átthagafélag stofnað í Fljótum -Vettvangur samvinnu um framfaramál

Haust í Fljótum. Mynd: KSE
Haust í Fljótum. Mynd: KSE

Mánudaginn 25. apríl var Íbúa- og átthagafélag Fljóta stofnað á fundi í Félagsheimilinu Ketilási. Ágætis mæting var á fundinn og mikill hugur í fundarmönnum. Tilgangur félagsins er að stuðla að eflingu samfélags,  atvinnulífs og fagurs mannlífs í Fljótum í Skagafirði, en starfsemin verður fólgin í að vera vettvangur samvinnu um framfaramál Fljótamanna, sem og að standa fyrir verkefnum og viðburðum sem styðja við jákvæða samfélagsþróun innan sveitarinnar.

Ljóst er að Fljótin hafa verið í vörn á undarförnum árum þegar horft er til byggðaþróunar. Vonir standa þó til þess að hægt verði að snúa vörn í sókn og tryggja byggð í Fljótum til framtíðar. Þar eru gríðarleg tækifæri til vaxtar sjálfbærrar og hæglátrar ferðaþjónustu (slow travel) á ársgrundvelli. Má þar nefna tækifæri varðandi gönguferðir og skíðamennsku, sögu svæðisins, náttúrufegurð, miðnætursól og norðurljós.
Hinu nýstofnaða félagi er ætlað að verða vettvangur þeirrar vinnu sem framundan er, efla samstöðu og samvinnu innan byggðarinnar, marka framtíðarsýn fyrir svæðið og verða vísir að nauðsynlegu klasasamstarfi ferðaþjónustuaðila og annarra hagsmunaaðila.
Líflegar umræður sköpuðust á fundinum og voru margar hugmyndir viðraðar um verkefni sem félagið gæti haft forgöngu um. Er þar ekki síst horft til þess að virkja þann góða hug og sterku taugar sem fjölmargir brottfluttir bera til svæðisins.

Kosin var fimm manna stjórn en hana skipa:

Sjöfn Guðmundsdóttir, formaður, sjofn@gav.is
Stefanía Hjördís Leifsdóttir, gjaldkeri, bruna@simnet.is
Kristín Sigurrós Einarsdóttir, ritari, gagnvegur@gmail.com
Sólrún Júlíusdóttir, meðstjórnandi, solrunjul@gmail.com
Arnar Þór Árnason, meðstjórnandi

Til vara:
Anna Guðný Hermannsdóttir
Halldór Hálfdánarson
Herdís Sæmundardóttir
Sigtryggur Kristjánsson
Þorlákur Sigurbjörnsson

Öllum er heimilt að gerast félagsmenn og geta áhugasamir haft samband í gegnum netföng stjórnarmanna og gerst stofnfélagar. Þá verður hefur verið stofnaður fésbókarhópur með nafni félagsins. Þar verða viðraðar ýmsar hugmyndir og fluttar fréttir af starfsemi félagsins.

Fleiri fréttir