Íbúafjöldi á Norðurlandi vestra breytist lítið

Mynd af vef Þjóðskrár Íslands, www.skra.is
Mynd af vef Þjóðskrár Íslands, www.skra.is

Þjóðskrá Íslands sendi frá sér tölur um íbúafjölda í byrjun marsmánaðar eins og vant er um mánaðamót. Þar kemur fram að Íslendingum hefur fjölgað um 0,4% frá 1. desember eða um 1.588 manns og eru þeir nú 358.259. Mest er fjölgunin í Reykjavík, 0,6%,  en hlutfallsleg fjölgun er mest í Skorradal, 6,9%.

Fækkað hefur í þremur landshlutum frá 1. desember sl., á Vestfjörðum um tólf íbúa og lítilsháttar fækkun varð á Vesturlandi þar sem fækkaði um einn og á Norðurlandi vestra um þrjá. Hlutfallslega varð mest fjölgun á höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum.  

Mest fjölgaði í Sveitarfélaginu Skagafirði, sé horft til sveitarfélaga á Norðurlandi vestra, eða um fimm íbúa, í Skagabyggð um fjóra og Blönduós, Húnavatnshreppur og Akrahreppur bættu við sig einum íbúa hvert sveitarfélag. Á Skagaströnd fækkaði hins vegar um átta íbúa og í Húnaþingi vestra um sjö.

Samanlagður íbúafjöldi á Norðurlandi vestra var 7.224 þann 1. mars síðastliðinn.

Hér má sjá töflu yfir fjölda íbúa eftir sveitafélögum þann 1. mars sl. og samanburð við íbúatölur frá 1. desember 2017 og 2018.     

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir