Íbúafundur með samgönguráðherra í kvöld
Í kvöld, miðvikudaginn 14. nóvember kl. 20:00, er boðað til íbúafundar á Hótel Hvítserk í Vesturhópi vegna slæms ástands Vatnsnesvegar. Samgönguráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson, mætir á fundinn.
Í hádegisfréttum útvarps í dag var rætt við Guðnýju Hrund Karlsdóttur, sveitarstjóra í Húnaþingi vestra, þar sem hún segir íbúa svæðisins vera að gefast upp á ástandinu. Segir hún það að vegurinn sé ekki á fimm ára samgönguáætlun vera til marks um skilningsleysi þingmanna og stjórnvalda. „Vonandi getur samgönguráðherra svarað fyrir það. Það má eiginlega segja að þegar þetta kemst ekki einusinni inn á áætlun að það sé einhverskonar lokapunktur eða merki um þetta gríðarlega skilningsleysi á þeim aðstæðum sem við búum við hérna.“
Guðný segir að það vanti sárlega skilning á því að þetta ástand verði að laga í stað þess að sóa tugum milljóna, ef ekki hundruðum, í alls kyns viðhaldsverkefni sem verði að engu í næstu rigningu. „Þannig að ég trúi ekki öðru heldur en að ráðamenn, sem vilja fara vel með almannafé, fari í varanlegar, viðunandi aðgerðir,“ segir Guðný Hrund Karlsdóttir, sveitarstjóri Húnaþings vestra.
Fréttir af fyrri íbúafundum: Segja ástand Vatnsnesvegar jaðri við barnaverndarmál og Binda vonir við að fundur með samgönguráðherra og fulltrúum Vegagerðar skili árangri.