Íbúakönnun vegna tímasetningar Sæluvikunnar 2026

Undanfarin ár hefur Sæluvikan hafist síðasta sunnudag aprílmánaðar og staðið yfir í viku. Nú er til skoðunar hvort færa eigi Sæluviku fram um tvær vikur, þannig að hún hefjist um miðjan apríl.

Elínborg Ásgeirsdóttir fulltrúi Byggðalista lagði fram erindi á fundi Atvinnu-, menningar- og kynningarnefndar í ágúst sl. þess efnis að skoðað yrði hvort mögulegt væri að færa Sæluviku Skagfirðinga fram um tvær vikur miðað við núverandi fyrirkomulag.
Þrátt fyrir að síðasti sunnudagur aprílmánaðar hafi undanfarin ár verið upphafsdagur Sæluviku Skagfirðinga þá hefur það ekki verið svo alla tíð. Þvert á móti þá hefur Sæluvikan, tímasetning hennar og dagskrá, mótast í gegnum árin í takt við samfélagið og þróun þess. Stór hluti íbúa Skagafjarðar eru bændur og líklegt að árstíðabundin störf geri þeim erfitt um vik að sækja dagskrá Sæluviku miðað við núverandi fyrirkomulag. Þessi breyting yrði því vonandi til að efla þessa merkilegu hefð Skagfirðinga enn frekar og auka fjölbreytni og þáttöku í viðburðum.

María Neves verkefnastjóri hjá Sveitarfélaginu Skagafirði sagði hátíðina vera íbúum kær og því hafi verið ákveðið að leyfa íbúum að hafa skoðun á þessu máli. Til að kanna viðhorf íbúa hefur sveitarfélagið sett í loftið íbúakönnun.

Könnunin er opin til og með 29. nóvember nk. og tekur aðeins örfáar mínútur að svara og hægt er að taka þátt HÉR.

Tekið er fram að einungis er um leiðbeinandi könnun að ræða.

Fleiri fréttir