Íbúar ósáttir við frágang gangstétta - Verkið verður klárað að sögn formanns byggðaráðs

Íbúar í Varmahlíð eru ósáttir við frágang gangstétta í þorpinu og vilja að gengið verði almennilega frá þeim hið fyrsta. „Við verðum að fá malbik á þetta strax, ef það er ekki til fjármagn þá verður bara að fá aukafjárveitingu í þetta til þess að ganga frá þessu,“ segir Kolbeinn Konráðsson íbúi í Varmahlíð.

Gangstéttin sem um ræðir nær frá Furulundi hjá leikskólanum, upp Skólastíginn og inn Birkimel, fram hjá Miðgarði - menningarhúsi Skagfirðinga. Þar var sandur borinn í gangstéttarnar en ottódekk upp Skólastíginn, en kantsteinar voru ekki lagfærðir né settir nýir.

Eftir 4-5 daga rigningu lítur nýja gangstéttin á Skólastíg svona út. Ljósm./BÞ

„Ég fékk þau svör að þetta væri endanlegt – þetta væri bara flott svona og að það væri ekki til fjármagn í frekari framkvæmdir. Þeir hafa betur sleppt þessu og gert þetta almennilega í áföngum en að gera þetta svona. Ég vil trúa því að þeir fari í það fljótlega að klára þetta fyrst þeir byrjuðu á þessu. Við viljum hafa þetta eins og hjá öðru fólki. Við borgum skatta og gjöld eins og aðrir, þetta er ekki boðlegt,“ segir Kolbeinn.

Stefán Vagn Stefánsson formaður byggðaráðs Svf. Skagafjarðar sagði í samtali við Feyki að verkið verði klárað, enda aldrei neitt annað staðið til og umræðan innan stjórnsýslunnar aldrei verið á annan veg. Þegar framkvæmdir hófust hafi komið í ljós að verkið væri umfangsmeira en upphaflega var gert ráð fyrir, vegna lélegs undirlags, og því hafi fjármagn klárast. Ætlunin sé að veita aukafjárveitingu í verkið og það klárað sem fyrst, vonandi í sumar svo framarlega sem verktakar séu ekki bundnir í öðrum verkum.

Fleiri fréttir