Íbúar Svf. Skagafjarðar orðnir 4001
Íbúar í Sveitarfélaginu Skagafirði eru komnir yfir 4000 manna múrinn eftir því sem fram kemur á heimasíðu Þjóðskrár og fjölgaði í sveitarfélaginu um 11 manns eða um 0,3% frá 1. des 2018 til 1. feb. 2019. Eru Skagfirðingar því samtals orðnir 4203, 4001 í Svf. Skagafirði og 202 í Akrahreppi. Á Norðurlandi vestra búa nú samtals 7.228 íbúar og hefur fjölgað um einn á þessum tveimur mánuðum.
Á þessu tímabili, frá 1. desember 2018, fækkaði í Húnaþingi vestra um fimm og eru nú alls 1.176, fjölgun varð í Blönduósbæ um tvo og eru nú 937, Sveitarfélagið Skagaströnd missti níu manns frá sér og teljast nú 450. Einn bættist við íbúafjöldann í Skagabyggð en þar búa nú 89 manns en einum íbúa fátækari er Húnavatnshreppur með 373 íbúa meðan Akrahreppur státar sig af 202 íbúum en þar fjölgaði um tvo.
Íbúum Reykjavíkur fjölgaði um 438 á tímabilinu frá 1. desember 2018 til 1. febrúar sl. sem er hlutfallsleg fjölgun upp á 0,3%. Þau sveitarfélög sem næst komu voru Mosfellsbær með 145 íbúa (1,3% fjölgun) og Kópavogur með 142 íbúa (0,4% fjölgun).
Hlutfallslega mest fjölgun í Skorradalshreppi
Á Skrá.is kemur fram að þegar horft sé til alls landsins þá fjölgaði íbúum Skorradalshrepps hlutfallslega mest eða um 8,6% en íbúum þar fjölgaði úr 58 í 63 íbúa. Íbúum fækkaði hlutfallslega mest í Árneshreppi, um 5,0% og í Borgarfjarðarhreppi um 2,8%. Þá fækkaði íbúum í 29 sveitarfélögum af 72 sveitarfélögum landsins í síðan frá 1. desember sl.
Sjá nánar HÉR
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.