Íbúðir í barnaskólahúsinu við Freyjugötu í sölu á næstu mánuðum

Malbikað við barnaskólann við Freyjugötu. Myndin tekin við Sæmundargötu. MYNDIR: ÓAB
Malbikað við barnaskólann við Freyjugötu. Myndin tekin við Sæmundargötu. MYNDIR: ÓAB

Það er mikið framkvæmt þessa dagana á Sauðárkróki og þegar blaðamaður fór á stúfana í gærmorgun var til að mynda verið að malbika á lóð gamla barnaskólahússins við Freyjugötu. Þrátt fyrir að framkvæmdum sé ekki lokið hefur byggingin tekið algjörum stakkaskiptum en gamli leikfimisalurinn var rifinn í sumarbyrjun og fyrir nokkru var sá partur hússins byggður upp að nýju. Feykir lagði nokkrar spurningar fyrir Friðrik Þór Ólafsson hjá byggingaverktakanum Friðriki Jónssyni ehf.

„Þessa stundina ganga framkvæmdir mjög vel, en við vorum fram að síðustu áramótum með barnaskólann sem hliðarverkefni meðfram öðrum verkefnum en höfum aukið áherslu á verkefnið,“ segir Friðrik aðspurður um gang framkvæmda.

Hversu margar íbúðir verða í húsinu? „Íbúðirnar í skólanum eru nú 13 talsins en í upphaflegum áætlunum var gert ráð fyrir ellefu íbúðum. Breytingar voru gerðar á íþróttahús hluta hússins og það endurhannað og endurbyggt að öllu leyti. Minnstu íbúðirnar eru 48 m2 og stærsta íbúðin rúmir 113 m2.

Er sala á íbúðum í húsinu hafin? „Íbúðirnar verða settar í opið söluferli hjá fasteignasölu, reiknað er með því að fyrri áfangi hússins verði settur í sölu á næstu mánuðum en frágangur innanhúss í áfanga 2 af húsinu verður mögulega tekinn eftir að fyrri hluti hússins verður kominn í sölu. Lóðaframkvæmdir á þessum tíma eru lykill fyrir því að hægt verði að selja íbúðirnar óháð því hvenær aðrir hlutar hússins verða klárir til sölu.“

Friðrik segir að teiknivinna fyrir parhúsin á lóðinni sé komin langt á veg en reiknað er með því að grunnar fyrir þeim verði teknir á næstu mánuðum.

- - - - - 

Myndirnar hér að neðan eru frá því í maí (fyrri hlutinn) og malbikunarmyndirnar frá því í gær. Teikningin er fengin af heimasíðu Friðriks Jónssonar ehf. >

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir