Íbúum Norðurlands vestra fjölgar hlutfallslega mest

Þjóðskrá Íslands hefur sent frá sér tölur um íbúafjölda svo sem venja er um hver mánaðamót. Íbúum hefur fjölgað hlutfallslega mest á Norðurlandi vestra frá 1. desember 2019 til 1. júlí 2020 eða um 1,3% en það er fjölgun um 98 íbúa. Íbúum á höfuðborgarsvæðinu fjölgaði um 0,8 % eða um 1.926 íbúa. Lítilsháttar fækkun varð í tveimur landshlutum, á Vestfjörðum og á Norðurlandi eystra. Fækkunin á Vestfjörðum nam 0,5% en á Norðurlandi eystra um 0,1%. 

Sé litið til einstakra sveitarfélaga á Norðurlandi vestra má sjá að mest er fjölgunin í Sveitarfélaginu Skagafirði þar sem fjölgað hefur um 66 manns og er það fjölgun um 1,6%. Þar eru íbúar nú 4.103.

Mest hefur fjölgað hlutfallslega í Akrahreppi, um 2,4% eða fimm einstaklinga en þar búa nú 210 manns.

Í Húnaþingi vestra er íbúafjöldinn 1.217, hefur fjölgað um sjö manns eða 0,6% og í Blönduósbæ búa 957 sem er fjölgun um 15 íbúa eða 1,6%.

Í Sveitarfélaginu Skagaströnd fækkaði um einn og sömu sögu er að segja um nágranna þeirra í Skagabyggð. Á Skagaströnd búa nú 472 íbúar og 89 í Skagabyggð. Í Húnavatnshreppi búa 377 manns. Þar hefur fjölgað um sjö eða 1,9%  

Upplýsingar um íbúafjölda má nálgast á vef Þjóðskrár. Eru þær uppfærðar mánaðarlega og byggjast á skráðri búsetu einstaklinga í þjóðskrá þann 1. hvers mánaðar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir