Ingibjörg með erindi á ATLAS ráðstefnunni
feykir.is
Skagafjörður
31.10.2014
kl. 09.13
Dagana 21.-24. október sl. fór fram hin árlega ráðstefna ATLAS (Association for Tourism and Leisure Education and Research), í Búdapest í Ungverjalandi. Að þessu sinni var yfirskrift ráðstefnunnar „Tourism, Travel and Leisure – Sources of Wellbeing, Happiness and Quality of Life?“
Eini íslenski þátttakandinn í ár var Ingibjörg Sigurðardóttir lektor við ferðamáladeild Hólaskóla. Hélt hún tvö erindi um hestaferðaþjónustu. Annars vegar erindi sem hét „Equestrian tourism as a contributor to wellbeing and happiness“ og hins vegar erindi í málstofu um rannsóknir í ferðamálum en það hét „Conducting mixed methods research in equestrian tourism“.
Var dagskráin þétt sett áhugaverðum erindum og umræðu þar sem margir af þekktustu fræðimönnum á sviði heilsuferðaþjónustu tóku þátt. Gestir ráðstefnunnar kynntust einnig lítillega ungverskri menningu en þjóðin er m.a. þekkt fyrir ríka sögu, heilsuböð, hestamennsku og vínframleiðslu. Þessir þættir eru meðal þess sem notaðir eru við uppbyggingu ferðaþjónustu í Ungverjalandi.
Frá þessu er sagt á vef Hólaskóla.