Ingvi Hrannar Ómarsson hlaut hvatningarverðlaun Íslensku menntaverðlaunanna

Ingvi Hrannar Ómarsson. Mynd af FB.
Ingvi Hrannar Ómarsson. Mynd af FB.

Tilkynnt var um verðlaunahafa Íslensku menntaverðlaunanna í dag en þeim er ætlað að auka veg menntaumbótastarfs og vekja athygli samfélagsins á metnaðarfullu og vönduðu skóla- og frístundastarfi með börnum og unglingum. Verðlaunin eru veitt í þremur aðalflokkum auk hvatningarverðlauna og bárust fjölmargar tilnefningar í öllum þeirra. Hvatningarverðlaun Íslensku menntaverðlaunanna hlýtur að þessu sinni Ingvi Hrannar Ómarsson kennari og frumkvöðull á Sauðárkróki.

Ingvi Hrannar hefur verið ötull í skapandi fræðslu og hefur Utís verkefni hans, sem er lærdómssamfélag brautryðjenda í kennsluháttum, fengið verðskuldaða athygli. Fyrir þá vinnu fær Ingvi Hrannar þessa viðurkenningu í dag en á heimasíðu menntamálaráðuneytisins eru einnig talin upp framúrskarandi stuðningur við starfsþróun íslenskra kennara með miðlun framsækinna hugmynda um skapandi skólastarf, nýsköpun og upplýsingatækni þar sem nemandinn er í brennidepli.

"Að hljóta Íslensku menntaverðlaunin árið 2020 er að ég held minn stærsti heiður á starfsferlinum til þessa og er ég þakklátur að hljóta þau ásamt öllum þeim kennurum um land allt sem hafa sótt Utís ráðstefnuna allt frá árinu 2015.

En þó ég sé sá sem tekur við verðlaunum væru þau ekki möguleg án hóps einhverra mögnuðustu kennara landsins, þar sem sköpunargleði, kraftur, gleði og samvinna er í fyrirrúmi. Mitt hlutverk hefur að mestu snúið að því að búa til vettvanginn sem Utís er fyrir frumkvöðlana í skólum um land allt til þess að hittast, deila og læra saman. Utís er og hefur verið magnaðasta verkefni sem ég hef tekið þátt í og er heiður að vera í forsvari fyrir þennan ótrúlega hóp," skrifar Ingvi Hrannar m.a. á Facebooksíðu sína.

Aðrir verðlaunahafar Íslensku menntaverðlaunanna 2020 eru:

Verðlaun fyrir framúrskarandi skólastarf eða menntaumbætur hlýtur Dalskóli í Úlfarsárdal í Reykjavík fyrir þróun þverfaglegra skapandi kennsluhátta, meðal annars í svokölluðum  smiðjum og starfsþróunarverkefni þar sem kennarar rannsaka eigið starf.

Verðlaun sem framúrskarandi kennari hlýtur Birte Harksen kennari við Heilsuleikskólann Urðarhól í Kópavogi fyrir framúrskarandi kennslu og frumkvæði við að efla skapandi og leikmiðaða starfshætti í leikskólum með vefsvæðunum Börn og tónlist, Leik að bókum og Stafagaldri.

Verðlaun fyrir framúrskarandi þróunarverkefni hlýtur þróunarverkefnið Smiðjur í Langholtsskóla í Reykjavík sem hefur það markmið að auka veg þverfaglegra viðfangsefna með áherslu á sköpun, lykilhæfni og nýtingu upplýsingatækni í námi.

Hægt er að sjá myndband af verðlaunaafhendingunni HÉR

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir