Ísland, best í heimi :: Leiðari Feykis

Peysufatapæjurnar og Upphlutsgellurnar eigast við í upphafsleik götukörfuboltamóts sem fram fór á 17. júní hátíðarhöldum í Skagafirði. Frá vinstri talið: Guðrún Ingólfsdóttir, Inga Rún Guðjónsdóttir, Sigríður Ingólfsdóttir og Svava María Ögmundardóttir framan við hana og loks Ásta Ólöf Jónsdóttir með boltann. Á myndina vantar Jóhönnu Björnsdóttur sem líka tók þátt. Aðsend mynd.
Peysufatapæjurnar og Upphlutsgellurnar eigast við í upphafsleik götukörfuboltamóts sem fram fór á 17. júní hátíðarhöldum í Skagafirði. Frá vinstri talið: Guðrún Ingólfsdóttir, Inga Rún Guðjónsdóttir, Sigríður Ingólfsdóttir og Svava María Ögmundardóttir framan við hana og loks Ásta Ólöf Jónsdóttir með boltann. Á myndina vantar Jóhönnu Björnsdóttur sem líka tók þátt. Aðsend mynd.

Nú er þjóðhátíðardagur okkar Íslendinga nýliðinn en stofnun lýðveldis 17. júní árið 1944 markaði endalok sambands Danmerkur og Íslands sem staðið hafði í aldir. Þetta sjálfstæði, sem við nú varðveitum, fékkst ekki bara af því bara, og okkur ber að gæta þess í hvívetna, menningu okkar og tungu. Þó að það virðist langt síðan sá atburður átti sér stað eru enn um fimmtán þúsund manns sem byggja landið, sem annað hvort fæddust á því ári eða fyrr. Um síðustu áramót voru 1.857 sem fæddust 1944 og eru því 79 ára á þessu ári.

Í svari Stefaníu Óskarsdóttur, prófessors í stjórnmálafræðideild við HÍ, á Vísindavefnum hvar spurt er um af hverju lýðveldi hafi verið stofnað á Íslandi og hver stofnaði það, segir að Íslendingar hafi smá saman fengið aukið sjálfstæði.

„Fyrst fengum við löggjafarvald í séríslenskum málum (1874), heimastjórn (1904) og loks fullveldi 1918. Fullveldisviðurkenningin fól í sér að Ísland varð sjálfstætt ríki. Samkvæmt sambandslagasamningnum, sem veitti Íslandi fullveldi, voru Ísland og Danmörk tvö sjálfstæð ríki með eigin þing og ríkisstjórn. Þau höfðu þó sameiginlegan konung sem á þessum tíma var orðinn valdalítill.

Það varð fljótlega ljóst að vilji var til þess á Íslandi að segja upp sambandslagasamningunum um leið og hægt væri (eftir 1943) og þar með konungssambandinu við Danmörk. Þann vilja mátti annars vega rekja til löngunar til að ráða að fullu yfir eigin landi og stjórn og hins vegar til stuðnings nútímahugmynda um lýðræði. Samkvæmt slíkum hugmyndum skal allt ríkisvald eiga uppruna sinn hjá almenningi. Árið 1941 samþykkti Alþingi að segja upp sambandslagasamningnum og stefna að stofnun lýðveldis.“

Í grein Stefaníu kemur einnig fram að kosningaþátttaka hafi verið gífurlega mikil eða 98,4% og nær allir kjósendur studdu bæði stofnun lýðveldis og uppsögn sambandslagasamningsins. Ný stjórnarskrá fyrir lýðveldið Ísland tók svo gildi 17. júní 1944 en þann dag var lýðveldið formlega stofnað á Þingvöllum.

Eins og allir vita er dýrt að verja sjálfstæðið, dýrt að halda úti eigin gjaldmiðli, dýrt að skapa og fremja list eða aðra menningu og það er dýrt að tala íslensku og verja hana gegn óæskilegum áhrifum. Það kostar sem sagt helling að vera Íslendingur.

Á Alþingi höfum við kosið okkur fólk til að sinna stjórn landsins, veitum þeim þá virðingu sem það á skilið fyrir sitt framlag og styðjum til góðra verka, gagnrýnum til góðs. Hættum niðurrifi og ómálefnalegu skítkasti, það á enginn skilið.

Áfram Ísland!
Páll Friðriksson, ritstjóri

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir