Íþróttasvæðið á Sauðárkróki
Fyrir tæpu ári síðan kynntum við framtíðarsýn okkar þar sem við hugsuðum um fjölnotahús, sundlauga- og skemmtigarð, aðstöðu fyrir íþróttir og hreyfingu og þjónustu þeim tengd. Hugmyndirnar gengu út frá því að menningarhús yrði reist á Flæðunum við hlið sundlaugarinnar. Okkar hugmyndir gerðu tilraun til að tengja Flæðarnar við skólasvæðið.
Í vor komu á fund aðalstjórnar fulltrúar Sveitarfélagsins Skagafjarðar. Þeir kynntu okkur hugmyndir um að menningarhús yrði tengt Árskóla og byggt á syðsta vellinum á íþróttasvæðinu. Þeir óskuðu eftir viðbrögðum og tillögum frá okkur í framhaldi af þessari kynningu. Í sumar höfum við skoðað málið og ákváðum að skynsamlegt væri að skoða málið í heild alveg frá byrjun og skoða hvernig við sjáum íþróttasvæðið í framtíðinni.
Meðfylgjandi mynd er niðurstaðan okkar. Við tilgreinum ákveðin svæði fyrir æfingasvæði, keppnissvæði og byggingarreiti. Okkur fannst eðlilegt að horfa á skólasvæðið og umferð í þessu sambandi. Nánari skýringar á myndinni eru;
· Byggingarreitur fyrir íþróttahús er nægjanlega stór til að koma fyrir fjölnotahúsi með knattspyrnuvelli í fullri stærð ásamt hlaupa- og stökkbrautum.
· Byggingarreitur fyrir sundlaug hýsir bæði keppnis- og kennslulaug ásamt sundlauga- og skemmtigarði. Á þessu svæði sjáum við fyrir okkur þjónustu við golfvöll og tjaldstæði.
· Búningsklefa má samnýta með íþróttahúsum sem gerir okkur kleift að nýta hluta af aðstöðunni í gamla íþróttahúsinu eingöngu fyrir Árskóla.
· Ytri völlur á núverandi æfingasvæði verði stækkaður í löglega keppnisstærð og gert ráð fyrir að hann geti orðið gervigrasvöllur í framtíðinni.
· Nýtt æfingasvæði verði gert á Nöfunum fyrir ofan byggingarreit fyrir sundlaugina. Þetta svæði verði nógu stórt til að hafa sex knattspyrnuvelli í fullri stærð. Svæðið ætti því að duga félaginu sem framtíðarsvæði til æfinga og mótahalds.
Nýtt tjaldstæði getur verið bæði í Grænuklauf og við Sauðárgil.
Golfvöllur getur náð suður að nýja æfingasvæðinu og niður að Nöfunum.
Ný akstursleið frá Hlíðarhverfi niður á Skagfirðingabraut. Leiðin liggur í stokk undir fjölnotahús og menningarhús og tengist hringtorgi á Skagfirðingabraut. Þetta gefur okkur möguleika á að endurskoða alveg umferðarmálin í kring um skólabyggingarnar og breyta núverandi bílastæði við Íþróttahús í leiksvæði fyrir börnin í Árskóla.
Við sjáum fyrir okkur að jarðvegurinn sem fjarlægja þarf úr Nöfunum verði nýttur í nýjan veg, jöfnunar á æfingasvæði og til að mynda landslag á Nöfunum til skjóls og skrauts. Tilvalið væri að hefja strax plöntun skjólgróðurs miðað við þetta skipulag.
Okkur þætti vænt um að heyra frá almenningi, svo endilega sendið okkur ykkar skoðanir í tölvupóst á netfangið tindastoll@tindastoll.is.
Fyrir hönd aðalstjórnar UMF Tindastóls
Gunnar Þór Gestson, Formaður