Ívilnanir Menntasjóðs vegna skorts á sérmenntuðu fólki

Víða um land hefur verið erfitt að manna ákveðnar starfsstéttir, starfsstéttir sem nauðsynlegar eru til að halda uppi ákveðinni grunnþjónustu við íbúa samfélagsins. Ákall er víða á landsbyggðinni eftir heilbrigðismenntuðu fólki, læknum og hjúkrunarfræðingum, sérfræðingum í geðheilsuteymin og sem og sérfræðingum á ýmsum sviðum atvinnulífsins.

Ívilnanir Menntasjóðs til sérstakra staða á landsbyggðinni

Frumvarp Lilju D. Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, um Menntasjóð námsmanna var samþykkt á Alþingi á vorþingi 2020. Um er að ræða heildarendurskoðun á námslánakerfinu og miðar að því að jafna stuðning ríkisins til námsmanna. Í lögum um Menntasjóð er til staðar heimild um tímabundna ívilnun við endurgreiðslu námslána á skilgreindum svæðum. Um er að ræða mikilvægt nýmæli þegar stór svæði eiga í vandræðum með að manna ákveðnar stöður og þörf er á að koma þessu ákvæði í virkni. Til þess að nýta þessa ívilnun þarf að liggja fyrir tillaga frá sveitarfélagi að skortur sé á einstaklingum með menntun í ákveðinni starfsstétt og sá einstaklingur sem þiggur ívilnun þarf að hafa lokið prófgráðu í viðkomandi námsgrein. Þá eru gerðar kröfur um að minnsta kosti 50% starfshlutfall og lengd búsetu að lágmarki tvö ár.

Þörfin er skýr, verkfærið þarf að brýna

Undirrituð lagði fram fyrirspurn til ráðherra háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra um þessar tímabundnu ívilnanir við endurgreiðslu námslána og lagði út frá því hvort komið sé að þeim tímapunkti að auglýsa þessar framangreindu ívilnanir.

Í svari ráðherra við fyrirspurn minni á Alþingi kemur fram að engin skýrsla sé fyrirliggjandi um viðvarandi skort í starfsstétt. Því sé ekki tilefni til þess að auglýsa tímabundna ívilnun við endurgreiðslu námslána vegna tiltekinna námsgreina enda liggi ekki fyrir hjá Byggðastofnun skilgreining á hvaða svæði væru þarna undir. Að þessu tilefni aflaði ég mér upplýsinga frá Byggðastofnun, þar hefur mér verið sagt að vinna sé að fara af stað um þetta mikilvæga mál og er von mín að innan fárra mánaða verði það komið í framkvæmd.

Mikilvæg byggðaaðgerð

Það þarf ekki að fjölyrða um hversu mikilvæg byggðaaðgerð þessi heimild er. Hvati fyrir byggðarlög sem eiga í stöðugri baráttu við að ná til sín fólk til að sinna mikilvægum störfum og halda uppi grunnþjónustu ásamt keppninni við að ná til sín sérmenntuðu fólk úr öðrum atvinnugreinum til að halda uppi öflugu samfélagi. Þessar ívilnanir efla samkeppnishæfni sveitarfélaga og mikilvægt er að þær verði nýttar sem fyrst þar sem þeirra er þörf.

Halla Signý Kristjánsdóttir þingmaður Framsóknar

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir