Jól í skókassa

Það voru glöð börnin í Úkraínu sem að fengu gjafir frá Íslandi,myndin er af heimasíðu Jól í skókassa og var tekin í fyrra.
Það voru glöð börnin í Úkraínu sem að fengu gjafir frá Íslandi,myndin er af heimasíðu Jól í skókassa og var tekin í fyrra.

Verkefnið Jól í skókassa er alþjóðlegt verkefni sem felst í því að fá börn jafnt sem fullorðna til þess að gleðja önnur börn sem lifa við fátækt, sjúkdóma og erfiðleika með því að gefa þeim jólagjafir. Gjafirnar eru settar í skókassa og verða sendar til Úkraínu líkt og undanfarin ár. 

Ladies Circle í Skagafirði tekur á móti pökkum fyrir góðgerðaverkefnið Jól í skókassa og í ár líkt og undanfarin ár verður tekið á móti kössum í Safnaðarheimilinu á Sauðárkróki mánudaginn 3. nóvember nk. milli klukkan 18:00 og 20:00. Kassarnir eiga að vera tilbúnir til afhendingar þegar þeir koma.

Til þess að tryggja að börnin fái svipaða jólagjöf er mælst til þess að ákveðnir hlutir séu í hverjum kassa. Stundum vill það vefjast fyrir fólki hvað skal setja í kassana, hérna er ágætur listi yfir hvað má fara og ekki má fara.

Í kassann skal setja a.m.k. einn hlut úr hverjum eftirtalinna flokka:

-Leikföng, t.d. litla bíla, bolta, dúkku, bangsa, eða jó-jó. Athugið að láta auka rafhlöður fylgja rafknúnum leikföngum.

-Skóladót, t.d. penna, blýanta, yddara, strokleður, skrifbækur, liti, litabækur eða vasareikni.

-Hreinlætisvörur, óskað er eftir því að allir láti tannbusta, tannkrem og sápustykki í kassann sinn. Einnig má setja greiðu, þvottapoka eða hárskraut.

-Sælgæti, t.d. sleikjó, brjóstsykur, pez, tyggjó eða karamellur.

-Föt, t.d. húfu, vettlinga, sokka, trefil, bol eða peysu.

Síðan er það listinn yfir það sem ekki má fara:

-Mikið notaðir eða illa farnir hlutir.

-Matvara.

-Stríðsdót, t.d. leikfangabyssur, leikfangahermenn eða hnífar.

-Vökvar, t.d. sjampó, krem eða sápukúlur.

-Lyf.

-Borthættir hlutir, t.d. speglar eða postulínsdúkkur.

-Spilastokkar, þar sem spilastokkar eru dengdir fjárhættuspilum í Úkraínu, er óskað eftir því að þeir séu ekki gefnir í skókassana.

Síðan er það frágangur á kassanum. Finnið tóman skókassa og pakkið honum inn í jólapappír. Athugið að pakka lokinu sérstaklega inn þannig að hægt sé að opna kassann. Hægt er að nálgast skókassa í skóbúðum og mælt er með að fólk tryggi sér kassa í tæka tíð.

Ákveða þarf hvort gjöfin sé fyrir stelpu eða strák og hvaða aldri gjöfin er ætluð: (3-6), (7-10), (11-14) eða (15-18).
Setjið 500-1.000 krónur efst í kassann. Peningurinn er fyrir kostnaði sem fylgir verkefninu. Loka skal kassanum með því að setja teygju utan um hann.

Verkefnið er tilvalið til að hefja jólavertíðina á góðverki. 

 

 

Fleiri fréttir