Jón Drangeyjarjarl látinn

Jón Eiríksson Drangeyjarjarl, fv. bóndi á Fagranesi á Reykjaströnd í Skagafirði, lést á hjúkrunardeild Heilbrigðisstofnunar Norðurlands á Sauðárkróki í fyrrinótt, 91 árs að aldri.

Í Morgunblaðinu segir að Jón hafi verið fæddur 8. janúar 1929 á Grófargili í Skagafirði, sonur hjónanna Eiríks Sigmundssonar og Birnu Jónsdóttur. Fjögurra ára gamall flutti hann með foreldrum sínum að Reykjum á Reykjaströnd og fáum árum síðar að Fagranesi. Þar átti hann heima allt upp frá því.

Jón var tvíkvæntur. Fyrri kona hans var Sigríður Viggósdóttir (f. 1940) og eignuðust þau fimm börn. Þau eru Eiríkur, Sigurjón, Viggó, Sigmundur og Alda. Seinni kona Jóns var Hólmfríður Heiðbjört Agnarsdóttir (1944-1997). Börn þeirra eru Sigfús Agnar, Björn Sigurður, Ásta Birna, Brynjólfur Þór og Jón Kolbeinn.

Jón byrjaði snemma að sækja í Drangey, seig þar í björg eftir eggjum og veiddi fugl á fleka í marga áratugi. Það var svo árið 1990 sem hann byrjaði með skipulagðar ferðir í Drangey, en þar og við Reyki á Reykjaströnd kom hann upp bryggjustúf og lendingaraðstöðu. Á næstu árum fór hann með þúsundir ferðamanna í eyna og var af því gjarnan í máli fólks nefndur Jón Drangeyjarjarl. Ferðir þessar skópu honum nafn og var hann útnefndur ferðafrömuður ársins 2007 af útgáfufélaginu Heimi.

Sjá nánar á Mbl.is

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir