Kaffi Krókur fær skjöld frá Markaðsráði kindakjöts

Veitingastaðurinn Kaffi Krókur á Sauðárkróki fékk afhentan skjöld frá Markaðsráði kindakjöts sem viðurkenningu fyrir að gera lambakjöt áberandi á sínum matseðli. Á skildinum er táknmynd sauðkindarinnar með áletruninni Icelandic lamb roaming free since 874 og er ætlað að vekja athygli á hinum fjölbreyttu afurðum hennar. Þeir sem skjöldinn fá geta notað merkið til að vekja athygli á sínum afurðum og í tilfelli KK restaurants verður það gert sýnilegt á matseðlum og samfélagsmiðlum staðarins.
„Við ætlum að hafa lambakjötið í öndvegi á matseðli okkar, en það höfum við reyndar verið að gera. Ætlum að gera meira af því, segir Stefán Svansson yfirmatreiðslumaður á KK Restaurant. Hann segir skjöldinn tilkominn þannig að viðræður áttu sér stað við Hafliða Halldórsson hjá Markaðsráði kindakjöts sem vildi endilega að veitingastaðurinn færi í þetta verkefni. „Íslenska lambið er hráefni á heimsmælikvarða, það er ekkert flóknara en það og að geta fengið það hér á staðnum í 500 metra fjarlægð er mikill kostur. Við höfum verið að þróa okkur áfram með matseðilinn og ætlum að vera með tvo lambakjötsrétti á matseðli, keyra á rétti dagsins og nota það svo mikið í hlaðborðið líka,“ segir Stefán en nýr matseðill er væntanlegur í lok mánaðarins.
Það var Ástþór Örn Árnason, nýkjörinn formaður Félags sauðfjárbænda í Skagafirði, sem afhenti Stefáni skjöldinn góða en hann segir að staðirnir séu komnir yfir 100 sem hafa gert sambærilegan samning við Markaðsráðið. Hann segir sýnilegan árangur vera af því hjá fyrirtækjum þegar farið er í þetta verkefni.
„Það er aukning á sölu á lambakjöti á stöðunum þannig að þetta er mjög skemmtilegt,“ segir Ástþór sem ætlar að fleiri staðir í Skagafirði hafi áhuga á að gera slíka samninga. „Það hefur verið gerð könnun meðal ferðamanna hvort þeir þekki merkið og útkoman var ótrúleg góð,“ segir hann.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.